Gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn

Páll Einarsson.
Páll Einarsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Niðurstöður nýrrar rannsóknar um snúning innri kjarna jarðar miðað við afganginn af jörðinni eru merkilegar en óvissan sem fylgir þeim er þó mikil.

Þetta segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus, um fregnir þess efnis að innri kjarni jarðar sé mögulega hættur að snúast í sömu átt og jörðin sjálf. Hann sé jafnvel búinn að breyta um stefnu og fari nú þvert á snúning hennar.

„Þetta eru vissulega mjög forvitnilegar niðurstöður og þær gefa ímyndunaraflinu byr undir báða vængi en þetta er gamalt mál og í raun og veru ekkert fréttaefni,“ segir Páll aðspurður.

Erfitt að fá niðurstöðurnar

Annar af vísindamönnunum sem stóðu á bak við rannsóknina skrifaði grein fyrir um 25 árum síðan sem sýndi fram á hreyfingar innri kjarnans miðað við afganginn af jörðinni. Nýja rannsóknin er „nýtt skref í langri keðju niðurstaðna“, að sögn Páls.

Hann bætir við að mjög erfitt sé að fá niðurstöður um innsta kjarna jarðar og þegar menn finni eitthvað nýtt um hann sé það vissulega áhugavert innan vísindanna en slíkt hafi lítil áhrif á daglegt líf fólks.

Jörðin.
Jörðin. AFP

Varlega tekið til orða

Hann segir að mjög varlega hafi verið tekið til orða í greininni sem var birt í Nature Geoscience um rannsóknina. Breytingarnar sem vísindamennirnir sjái séu gríðarlega litlar, eins og þeir geri sjálfir grein fyrir, og allt sé þetta „niðri í óvissumörkunum“.

Páll segir vísindamenn hafa velt fyrir sér hvort þessar hreyfingar á innri kjarnanum tengist lengd dagsins, sem breytist um nokkrar millisekúndur fram og til baka eftir árum, eða breytingum á segulsviði jarðar.

„Þeir benda á [í nýju rannsókninni] að hugsanlega hangi þetta saman, sem er vissulega mjög áhugavert en hefur ekki rosalega merkingu fyrir hið almenna líf á jörðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert