Meira fjarskiptaöryggi og aukin afköst

Hér má sjá hvar ný leið Mílu liggur.
Hér má sjá hvar ný leið Mílu liggur. Ljósmynd/Aðsend

Nýtt fjarskiptaflutningskerfi Mílu hefur verið tekið í notkun. Kerfið liggur umhverfis landið og þvert yfir hálendið og tryggir með því fjarskiptaumferð innanlands sem og til Evrópu. Nýja kerfið er fyrsti áfangi uppbyggingaráætlunar Mílu en annar áfangi, sem nær meðal annars til Vestfjarða, er í uppbyggingu. Uppbygging kerfisins er unnin í samstarfi við Farice.

„Tilgangur kerfisins er að flytja fjarskiptaumferð milli landshluta, annast tengingar milli staða innanlands og flytja innanlandshluta útlandasambanda sem tengjast FARICE-1 fjarskiptasæstrengnum. Með þessu eykst öryggi útlandasambanda milli Íslands og Evrópu með fjölgun varaleiða og aukinni afkastagetu á flutningsleiðum hérlendis.  FARICE-1 er fyrsti fjarskiptasæstrengur Farice ehf. og liggur hann frá Seyðisfirði til Skotlands,“ segir í tilkynningu frá Mílu.

Þá flytji kerfið ljósbylgjur á milli staða en hver bylgja geti flutt það sem samsvarar meðal netnotkun sextíu þúsund heimila á sekúndu. Ný hálendisleið skapi einnig meira öryggi en verði slit á landshring hafi þau minni áhrif og eru slit á tveimur stöðum í einu talin ólíkleg.

„Þetta nýja flutningskerfi styður uppbyggingu á 4G/5G farsímasendum um allt land og ljósleiðaravæðingu fyrir heimili og fyrirtæki og tryggir nægan hraða og afköst til þess að veita háhraða fjarskiptaþjónustu um allt land. Kerfið er opið og geta öll fjarskiptafélög sem bjóða þjónustu á Íslandi nýtt sér þetta kerfi,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert