Hakkarar sem hugsa út fyrir kassann

Keppnin fór fram síðustu helgi.
Keppnin fór fram síðustu helgi. Ljósmynd/Aðsend

Gagnaglíman 2023 fór fram síðustu helgi í Háskólanum í Reykjavík, markmið hennar er að efla áhuga ungmenna á netöryggi og auka þekkingu þeirra og færni á því sviði. Í kjölfar keppninnar heldur tíu manna lið frá Íslandi til Noregs til þess að taka þátt í Netöryggiskeppni Evrópu síðar á þessu ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Gagnaglíman er haldin af frumkvæði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins og eru Origo og Syndis styrktaraðilar keppninnar.

Elvar Árni Bjarnason, Kristinn Vikar Jónsson og Dagur Benjamínsson höfnuðu …
Elvar Árni Bjarnason, Kristinn Vikar Jónsson og Dagur Benjamínsson höfnuðu í þremur efstu sætunum. Ljósmynd/Aðsend

Skortur á sérfræðingum 

Elvar Árni Bjarnason bar sigur úr býtum í keppninni, Kristinn Vikar Jónsson var í öðru sæti og Dagur Benjamínsson í því þriðja. Allir fengu þeir verðlaunapening fyrir árangurinn og fengu öflugustu nýliðar keppninnar einnig viðurkenningu.

„Keppnin var sett á laggirnar eftir átak hjá Netöryggissambandi Evrópu, með það markmið að vekja áhuga ungs fólks á netöryggi vegna þess hve mikill skortur er af fólki í þessum bransa,” er haft eftir Hjalta Magnússyni, formanni keppninnar.

Þá telji hann stöðu netöryggismála hér á landi vera dræma en mikill skortur sé á sérfræðingum á þessu sviði hérlendis.

Horfa á hlutina frá öðru sjónarhorni

Greint er frá því að netöryggi hafi nýlega verið á margra vörum og þá sérstaklega eftir netárásirnar sem fylgdu nýliðnum leiðtogafundi Evrópuráðsins sem haldinn var hér á landi.

Hakkarar eru bara fólk sem hugsar út fyrir kassann, til þess að vera hakkari þarftu að horfa á hlutina frá öðru sjónarhorni. Keppnin á fyrst og fremst að vera skemmtileg fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á netöryggi og einnig að fá þau til að hugsa út fyrir kassann,“ er haft eftir Hjalta.

mbl.is