Taílenskt kjúklingasalat

Taílenskt kjúklingasalat.
Taílenskt kjúklingasalat. Ljósmynd/Svava

„Yfir vetrartímann hef ég súpu í hverri viku í matinn en þegar fer að hlýna skiptum við ósjálfrátt yfir í salat. Þó það hafi farið lítið fyrir sumrinu hér á höfuðborgarsvæðinu þá hefur gripið um sig mikið salatæði á heimilinu. Þetta kjúklingasalat hefur verið í miklu uppáhaldi í gegnum tíðina og þar þykir mér mestu skipta að nota góða satay sósu. Ég hef prófað margar tegundir en er hrifnust af sósunni frá Thai Choice. Mér þykir hún langbest og á hana alltaf til í skápnum. Upp á síðkastið höfum við þó fengið æði fyrir nýju salati sem gefur öðrum ekkert eftir og við fáum ekki nóg af því,“ segir Svava matarbloggari á Ljúfmeti og lekkerheit.

„Það sem að gerir salatið ómótstæðilegt er sósan því hún er einfaldlega himnesk. Upp á síðkastið hef ég brugðið á það ráð að skera niður hráefnið í salatið og bera það fram í litlum skálum. Hver og einn raðar svo saman sínu salati. Bæði myndar það skemmtilega stemmningu við matarborðið og allir fá það sem þeir vilja í salatið sitt. Það er svo gaman að fylgjast með því hvernig krakkarnir gera salatið sitt og það hefur komið mér á óvart hvað þau eru frökk og áhugasöm að prófa nýjar samsetningar.“

Sósan:

  • 1 bolli Thai Choice sweet chili sauce
  • ½ bolli rice vinegar
  • ½ bolli Thai Choice lite coconut milk
  • 6 msk púðursykur
  • 4 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 msk hnetusmjör
  • 2 tsk engifer, rifið
  • safinn úr 2 lime
  • 1 msk Thai Choice soya sósa

Aðferð:

Setjið öll hráefnin í pott, hrærið þeim saman og látið suðuna koma upp. Látið sjóða við vægan hita í 3-4 mínútur. Takið af hitanum og hellið helmingnum af sósunni yfir kjúklingabringurnar. Geymið hinn helminginn sem dressingu yfir salatið. Eldið kjúklingabringurnar í 190° heitum ofni í 25-30 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert