Kalkúnn a la Gordon Ramsay

Kalkúnn er einn vinsælasti hátíðarmaturinn hér á landi.
Kalkúnn er einn vinsælasti hátíðarmaturinn hér á landi. thinkstockphotos.

Kalkúnn er vinsæll hátíðarmatur hvort sem er á aðfangadag, jóladag eða á gamlárskvöld. Hér er skotheld uppskrift frá meistaranum Gor­don Ramsay.

Smelltu hér fyrir uppskrift af kalkúnasósu og hér fyrir fyllingu.

Fyrir 8-10

1 kalkúnn, ca. 5-5,5 kg.
sjávarsalt og nýmalaður pipar
2 laukar, afhýddir og skornir í tvennt
1 sítróna, skorin í tvennt
1 heill hvítlaukur, klofinn í tvennt á þverveginn
6 lárviðarlauf
olífuolía
8 sneiðar beikon (reykt ef til)

Sítrónu-, steinselju- og hvítlaukssmjör

375 g smjör, við stofuhita
1 msk ólífuolía
fínt rifinn börkur af 2 sítrónum og safinn af þeim
3 hvítlauksrif, afhýdd og kramin
lófafylli af steinselju (flatlaufa), skorin smátt (mínus stilkar).

Hitaðu ofnin í 220°C. Á meðan skaltu útbúa kryddsmjörið. Settu smjör í stóra skál og kryddaðu með salti og pipar. Bættu út í ólífuolíu og blandaðu vel. Bættu út í sítrónusafa og rifnum berki af sítrónu, mörðu hvítlauksrifi og steinselju. Blandaðu vel.

Fjarlægðu innyflin úr kalkúni og kryddaðu að innan með salti og pipar. Næst skaltu setja inn í hann laukinn, sítrónuna, hvítlaukinn og lárviðarlaufin. Losaðu húð af bringunum með fingrum á báðum endum þannig að þú getir troðið kryddsmjörinu undir en passaðu að húðin fari ekki af.

Gerðu það sama með húðina á lærum. Settu helminginn af kryddsmjörinu undir húðina. Afganginn skaltu nota til að smyrja kalkúninn að utan.

Settu afganginn af lárviðarlaufum undir húð bringnanna.

Settu fuglinn í eldfast mót (gott ef þú átt steikingargrind). Þegar búið er að smyrja hann vel með smjörinu skaltu salta og pipra. Svo máttu skvetta smá ólífuolíu yfir.

Grillaðu kalkúninn í heita ofninum í 10-15 mínútur. Taktu hann þá út, og austu hann með safanum sem hefur komið af honum. Leggðu beikon-sneiðarnar yfir bringurnar til að halda þeim rökum. Austu aftur yfir kalkúninn.

Lækkaðu hitann í 180°C og eldaðu í 2 og ½ tíma eða 30 mínútur á hvert kíló. Baðaðu hann í safanum annað slagið.

Til að sjá hvort hann er tilbúinn athugaðu hvort safinn sé orðinn glær, frekar en bleikur en það geturðu séð ef þú stingur prjóni í þykkasta part lærisins. Það er mjög mikilvægt að athuga það hálftíma áður en áætlaður tími er kominn. Ef safinn er enn bleikur, skaltu elda í korter í viðbót og athuga svo aftur. Gerðu þetta þar til kalkúnninn er tilbúinn.

Taktu hann svo út og settu á heitan disk. Fjarlægðu lárviðarlaufin áður en kalkúnninn er skorinn. Berðu fram með sósu, fyllingu og öðru meðlæti.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert