Gerjaðar gulrætur eru lítið mál

Krukkurnar úr IKEA henta vel fyrir 500 g af grænmeti.
Krukkurnar úr IKEA henta vel fyrir 500 g af grænmeti. mbl.is/Dagný Hermanns

Við elskum hana Dagnýju Hermannsdóttur grænmetisséní og súrkálsfrömuð. Dagný stendur reglulega fyrir námskeiðum sem eru alltaf troðfull enda er gerjað grænmeti ákaflega vinsælt. Svo ekki sé talað um sniðuga geymsluaðferð á haustuppskerunni. Dagný hefur ekki notað sykur í 17 ár og segir það alls ekki þurfa til gerjunar.

Dagný laumaði að okkur einfaldri uppskrift fyrir þá sem vilja prufa sig áfram í gerjunarbransanum en fyrir áhugasama má sjá upplýsingar um næsta námskeið hennar hér.

Sýrðar gulrætur

500 g gulrætur
5 dl vatn
15 g salt
Krydd eftir smekk svo sem hvítlauksrif, timjan eða dill

Þetta passar í 1 lítra krukku með smelluloki.

Skerið gulræturnar í þykkar sneiðar og setjið í krukkuna, leysið saltið upp í köldu vatni og hellið yfir gulræturnar. Ef vill má krydda eftir smekk, t.d. skera hvítlauksrif í báta og setja á botninn og bæta við kvisti af timian eða dilli. Passið að saltvatnið fljóti yfir gulræturnar. Setjið dálítið saltvatn í frystipoka eða annan sterkan plastpoka og leggið ofan á gulræturnar svo þær haldist undir vatninu. Lokið krukkunni og komið henni fyrir á diski og látið standa við stofuhita í tvær vikur. Það er ráðlegt að opna krukkuna varlega 1-2 sinnum á dag fyrstu vikuna svo kolsýran sem myndast við gerjunina sleppi örugglega út.

Eftir tvær vikur ættu gulræturnar að vera orðnað passlega súrar og saltar. Geymist mánuðum saman í kæli.

Dagný ræktar sínar gulrætur sjálf og finnst skemmtilegast að taka …
Dagný ræktar sínar gulrætur sjálf og finnst skemmtilegast að taka þær frumlegu upp. mbl.is/Dagný Hermanns
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert