Svona áttu að pússa silfrið

Fólk dundar sér við ýmsa hluti fyrir jólin eins og að pússa silfur. En hvernig skyldi vera best að bera sig að? Nemendur í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað búa til sinn eigin fægilög sem virkar ekki bara vel heldur er umhverfisvænn. 

Það eru margir með fulla skápa af silfri sem aldrei er notað því fólk veit ekki hvernig á að fægja það. Nemendur Hússtjórnarskólans á Hallormsstað lærðu réttu trixin á dögunum og ætla að miðla áfram til lesenda Jólablaðs Morgunblaðsins.

Hússtjórnarskólinn er framhaldsskóli á sviði textíls og matreiðslu. Á haustönn lærðu nemendur fleira en að fægja silfur því þau lærðu réttu trixin í jólabakstri, matreiðslu á jólamat ásamt því að sinna textílverkefnum, vefnaði, fatasaum, prjóni og hekli. Áður en nemendurnir lærðu að pússa silfrið var þeim kennt að búa til umhverfisvænan fægilög. Þau fullyrða að þetta sé svo einfalt að hver sem er geti framkvæmt þetta með góðum árangri.

Silfurfægilögur - 100% umhverfisvænn

  • 1 l heitt vatn (soðið vatn)
  • 4 msk. salt
  • 4 msk. matarsódi
  • 1 örk álpappír (hylur botninn á vaskinum)

Heita vatnið er sett í vaskinn og efnum blandað saman við, hrært aðeins í. Silfur sett út í vatnið, látið bíða í nokkra stund. Svertan af silfrinu fer af og yfir á álpappírinn.

Silfrið er skolað og þerrað með bómullarklút.

mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert