Ljúffeng langelduð lambakássa

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Ragnar Freyr Ingvarsson, betur þekktur sem Læknirinn í eldhúsinu, bauð í vetrarveislu á dögunum þar sem hann reiddi fram ljúffenga langeldaða lambakássu með flauelsmjúku kartöflupúre.

Inni á síðu læknisins má finna mun ítarlegri leiðbeiningar ásamt myndum en hér er uppskriftin og njótið vel.

Ljúffeng langelduð lambakássa með flauelsmjúku kartöflupúré

Þetta er í raun eldamennska eins og hún er einföldust. Í raun bara að raða í pott og bíða.

Fyrir átta

  • 2,5 kg sagaður lambaframpartur
  • 2 rauðir laukar
  • 4 sellerísstangir
  • 5 hvítlauksrif
  • 6 gulrætur
  • 500 g sveppir
  • 5 lárviðarlauf
  • 100 g smjör
  • 3 l lambasoð
  • 2 msk. Vilt og ótamið - kryddblanda frá Kryddhúsinu/Lækninum í Eldhúsinu
  • 1 dós tómatpúre
  • 1/2 flaska rauðvín
  • 1 msk. Lea & Perrins Worchestershire-sósa
  • 1 kg kartöflur
  • 150 g smjör
  • 250 ml rjómi
  • 1/3 múskathneta
  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Fyrsta skrefið var að velta öllum lambabitunum upp úr hveiti, salti, pipar og smá hvítlauksdufti. Hveitið hjálpar kássunni að þykkna þegar yfir lýkur.
  2. Bitarnir voru svo steiktir í smjöri þangað til að þeir voru fallega brúnaðir. Þá voru þeir settir til hliðar og grænmetið steikt. Þessi mynd er nú eiginlega bara upp á rómantíkina sem mér fannst vera í loftinu á sunnudaginn þegar bylurinn lamdi gluggana. 
  3. Skar svo hvítlauk, rauðlauk og sellerí niður í smáa bita.
  4. Gulrótunum leyfði ég bara að vera í stórum bitum. Bætið við lárviðarlaufum.
  5. Þegar grænmetið er mjúkt og eldhúsið ilmar dásamlega er öllu kjötinu bætt saman við. 
  6. Ég hafði opnað flösku fyrir einhverjum dögum síðan og af einhverjum skussaskap ekki klárað þannig að tveir þriðju hlutar hennar voru eftir - svona á maður ekki að fara með góð vín. En á móti kemur að maður á gott vín til að nota í matinn. 
  7. Hellti saman við og sauð upp áfengið. 
  8. Svo ein dós af tómatpúre.
  9. Þessi blanda frá mér og Krydd- og Tehúsinu kom á markaðinn nú fyrir jól og var fyrst og fremst hugsuð fyrir villibráð - en hún er einnig ljúffeng með íslensku lambakjöti sem að mínu mati mætti nánast kalla villibráð þar sem lömbin ganga á heiðar og éta villigrös þangað til þeim er slátrað að hausti. 
  10. Þarna kennir ýmissa grasa - þurrkuð bergmynta, rósmarín, hvítlaukur, einiber, rósapipar, svartur pipar, allrahanda og margt fleira - allt hugsað til að lyfta hráefninu upp á efstu hæðir. 
  11. Þegar suðan var komin upp skellti ég sveppunum saman við. Fleytti allri froðu ofan af (það er froðan sem kemur upp á yfirborðið þegar kássan hitnar). Setti svo pottinn inn í 170 gráðu heitan ofn og þar var hann látinn kúra í 3,5 tíma.
  12. Svo sauð ég nokkrar flysjaðar kartöflur í söltuðu vatni, setti svo í annan pott ásamt smjöri og rjóma, salti og pipar.
  13. Raspaði svo 1/3 af múskathnetu saman við kartöflupúreið.
  14. Úr varð þessi dásamlega mús/púre - sem var flauelsmjúk.
  15. Kássan ilmaði dásamlega þegar hún kom úr ofninum. Ég fleytti mestu af fitunni ofan af (geymi hana að sjálfsögðu til betri tíma - sem grunn í sósu, súpu eða næstu kássu - inn í frysti).
  16. Kássan reyndist hrein dásemd. Fullkomin á vetrardögum sem þessum.
  17. Svo er um að gera að nýta afganginn daginn eftir - kássan batnar bara á næstu dögum þegar bragðið þróast og kryddin jafna sig saman.
  18. Verði ykkur að góðu.
mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert