Girnilegt kjúklingapasta Nönnu

mbl.is/Nanna Rögnvaldar

Hér gefur að líta uppskrift að einföldu og góðu kjúklingapasta sem sjálf Nanna Rögnvaldar á heiðurinn að. Hér er um að ræða skotheldan rétt sem sómir sér vel á hvaða kvöldverðarborði sem er og allir ættu að elska.

Bloggsíða Nönnu: Konan sem kyndir ofninn sinn

Kjúklinga pastasalat Nönnu

  • 1 msk af olíu
  • 2 kjúklingabringur
  • 2 tsk af sítrónusafa
  • 1/2  tsk af timjani
  • 1/2 tsk af kummini
  • cayenne-pipar
  • lambhagasalat
  • pasta

Aðferð:

  1. Ég átti tvær kjúklingabringur í frysti, tók þær út og skar þær niður hálffrosnar. Það er ekkert nauðsynlegt, gerði það bara til að flýta aðeins fyrir. Ég skar þær á ská til að fá stærri skurðflöt og hafði sneiðarnar svona 1-1 1/2 cm þykkar.
  2. Ég blandaði saman á djúpum diski svona 1 msk af olíu (þetta var jarðhnetuolía en það má nota ólífuolíu eða aðra olíu), 2 tsk af sítrónusafa,1/2  tsk af timjani (sem er reyndar líklega ekki komið í maríneringuna þegar myndin er tekin) 1/2 tsk af kummini, örlitlum cayenne-pipar, pipar og salti, velti kjúklingasneiðunum upp úr  og lét þær liggja á meðan þær voru að þiðna; hrærði í nokkrum sinnum til að velta þeim upp úr maríneringunni.
  3. Ég hitaði vatn í potti og saltaði það, setti pasta (ég notaði skeljar) út í og sauð þær samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Á meðan hitaði ég grillpönnu (má líka vera venjuleg) vel, setti kjúklingasneiðarnar á hana og steikti þær við fremur háan hita í svona 3 mínútur.
  4. Þá sneri ég þeim og steikti þær áfram við góðan hita í 3-4 mínútur, eða þar til þær voru steiktar í gegn en ekki orðnar þurrar.
  5. Þá var pastað einmitt hæfilega soðið og ég tók svolítið af pastasoðinu frá en hvolfdi svo úr pottinum í sigti, lét renna af pastanu, setti það í skál og hellti 1-2 matskeiðum af ólífuolíu yfir og blandaði vel. Tók svo væna lúkufylli af salatblöðum (lambhagasalat, minnir mig, en má vel vera annað), saxaði gróft og blandaði saman við sjóðheitt pastað. Bætti við smáskvettu af pastasoði.
  6. Svo setti ég pastasalatið í skál með kjúklingasneiðunum. Það sakar ekkert að bæta við nokkrum basilíkublöðum ef maður á þau.

Og svo bara nóg af nýrifnum parmesanosti með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert