Hlutir sem gleymast í heimilisþrifunum

Nú er tími hreingerninga - loksins þegar glittir í sólina og rykflygsur vetursins koma í ljós. Það er nefnilega þannig að jafnvel þótt að maður þrífi reglulega þá eru ákveðnir hlutir sem sitja á hakanum og það kannski eðlilega þar sem af nógu er að taka.

En hér er listi sem gott er að hafa bak við eyrað yfir hluti sem eru alla jafna ekki hluti af vikulegri eða mánaðarlegri þrif-rútínu... en ættu að þrífast reglulega... þá mögulega á vorin og fyrir jól.

Ísskápurinn: Þú ferð sjálfsagt yfir matvælin í ísskápnum í hverri viku, en það er góð hugmynd að taka skápinn rækilega í gegn á nokkurra mánaða fresti. Þá er gott að þvo hillurnar, athuga hvort einhverjar vörur eru útrunnar og endurskipuleggja í skápnum.

Tæki og tól: Lampar, ljósakrónur, loftventlar og fleira þess háttar þarfnast einnig umhyggju og eftirlits. Þurrkið af þeim á nokkurra mánuða fresti til að koma böndum á köngurlóarvefi og ryk.

Bakarofninn: Það er auðvelt fyrir óhreinindi að fela sig bak við lokaðar dyr. En eldhústæki þarfnast reglulegrar umhirðu og veitir ekki af að þrífa þau rækilega á þriggja til sex mánaða fresti – jafnvel oftar.

Síur: Það er algjör nauðsyn að skipta um síur í ofnum, viftum og lofthreinsibúnaði á nokkurra mánaða fresti, jafnvel oftar ef gæludýr eru á heimilinu eða einhver þjáist af ofnæmi.

Dýnur: Til að halda í skefjum ryki, rykmaurum og ofnæmi þarf helst að hreinsa rúmdýnurnar vel tvisvar á ári (jafnvel oftar). Það veitir ekki af að ryksuga rækilega og dusta uppáhaldshvílustaðinn sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert