Jillian Michaels ekki sátt við ketó mataræðið

mbl.is/Jillian Michaels

Líkamsræktargúrúinn Jillian Michaels hefur ekki legið á skoðun sinni varðandi ketó mataræðið sem tröllríður heimsbyggðinni en ketó byggir á sömu hugmyndafræði og Atkins gerði hér um árið. Ketó nýtur mikilla vinsælda enda áhrifaríkur en í nýlegu viðtali við People tímarið gerði hún grein fyrir skoðun sinni.

„Ástæðan fyrir því að ketó mataræðið fær svona mikla athygli er af því það hjálpar virkilega til við að stýra insúlínmagninu í líkamanum en hátt insúlínmagn er mjög slæmt,“ útskýrir hún. „Þess vegna virkar keto vel fyrir fólk sem er með hátt insúlín, sérstaklega þá sem eru með blöðrur á eggjastokkunum, sykursýki tvö og ófrjósemi, en það er ekki þörf á því fyrir flest fólk,“ bætir hún við. „Ef þú ert ekki að borða mikið af unnum kolvetnum og unnum sykri og ef þú ert á annað borð ekki að borða of mikið ætti insúlínið þitt að vera í lagi,“ útskýrir hún.

Ketó mataræðið fagnar heilbrigðri fitu, takmarkar verulega kolvetni og lágmarkar prótín. Þegar þú ert ekki að borða eitt af þessum makró-næringarefnum ertu bókstaflega að svelta frumurnar og koma í veg fyrir að þær starfi á eðlilegan hátt,“ segir hún og bætir við að þó ketó hafi verið hampað af Hollywood-stjörnum á borð við Halle Berry (sem sé sykursjúk) og Kourtney Kardashian, þá geti það líka flýtt fyrir öldrun.

„Þeir sem eru á því að fituríkt mataræði þýði að þeir geti borðað hvað sem er í hvaða magni sem er séu að gera stórkostleg mistök,“ segir Michaels.

Hennar ráð sé það sama og það hafi alltaf verið: „Hreyfðu þig, borðaðu hollt og ekki borða of mikið,“ segir hún. „Ég lofa að fjölbreytt mataræði er alltaf besta aðferðin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka