Svei mér þá... sumt fólk (nefni engin nöfn á þessu stigi málsins) er svo flinkt að baka að okkur hinum (nefni engin nöfn) liggur við aðsvifi af aðdáun.
Þessi kona sem á heiðurinn af þessu ruglpartíi sem við sjáum hér myndir af er engin önnur en Berglind Hreiðarsdóttir á Gotteri.is og ef þið haldið að hún sé annaðhvort platmanneskja eða snargalin þá get ég staðfest að það er hún alls ekki.
Þess í stað eru hún afburðabakari með einstaka ást á kökugerð eins og sjá má. Svo er hún líka svo smekkleg, sem hjálpar töluvert til en undirrituð getur vottað að það er ekki það sama að baka góða og fallega köku - bara nákvæmlega enginn samnefnari þar.
Tilefnið var eins árs afmælisveisla Huldu Sifjar en í leiðinni var afmæli eldri systur hennar, Elínar Heiðu, fagnað með formlegum hætti.
Myndirnar tala sínu máli en uppskriftirnar er flestar að finna hér að neðan.
Rice Krispies-kökur
Ég gerði uppáhalds-hrískökuuppskriftina mína, smurði henni út á bökunarpappír (hafið bretti/bakka undir svo auðveldara sé að koma í kæli) og mótaði ílangan rétthyrning (ekki fullkominn samt) með fingrunum. Íspinnaprikunum er því næst stungið í báðum megin og með jöfnu millibili, reynið að hitta í miðjuna á blöndunni svo ekki sjáist í prik öðruhvorumegin þegar búið er að kæla, þrýstið með fingrunum þegar þetta er unnið svo prikin festist betur. Setjið í kæli í um 30-60 mín. og skerið svo þvert yfir og því næst á milli prika til þess að slíta „ísana“ í sundur.
Allt sett saman í pott nema Rice Krispies. Hitað þar til bráðið og ég leyfi þessu alltaf að „sjóða“ í um eina mínútu og hræri vel í á meðan því þá festist blandan betur saman þegar hún kólnar. Takið því næst af hellunni í nokkrar mínútur og bætið Rice Krispies útí, hrærið vel á milli og bætið svo meiru við eftir þörfum.