Ómótstæðilegur fiskur sem allir í fjölskyldunni elska

mbl.is/Hanna Þóra

Djúpsteiktur fiskur er mögulega eitt það albesta sem hægt er að borða og er það skoðun undirritaðrar að við borðum hreint ekki nóg af þessari dásemd. Hér er uppskrift úr smiðju Hönnu Þóru sem er í senn ótrúlega nákvæm og auðvelt að fylgja - svo að ekki sé minnst á myndbandið sem fylgir með. Ómótstæðilegt fish and chips með heimagerðu remúlaði og coleslaw

Uppruni

Ég veit að þetta er kannski ekki það allra hollasta en það er svo gaman þegar einhver réttur höfðar til margra aldurshópa.  Fiskurinn sem slíkur er ekki óhollur enda brakandi ferskur þegar hann kemur upp úr pottinum  Ég er búin að mæla hvað fer mikið af olíu þegar fiskurinn er djúpsteiktur og það er ekki mikið….. en meðlætið er smá ,,djúsi¨ en það gerir svo sem ekki mikið til svona endrum og eins.

Forvinna

Salatið (coleslaw) má búa til fyrr um daginn og einnig er gott að útbúa remúlaðið eitthvað áður – gott að láta það taka sig.  Ég laga einnig deigið eitthvað áður og læt það aðeins standa.  Best að djúpsteikja fiskinn rétt áður en hann er borinn fram.

Hráefni:

Fiskur og kartöflur

 • Rúmlega 1 kg þorskhnakki (u.þ.b. 12 bitar)
 • Olía sem þolir vel hita – ég hef notað Sólblómaolíu (einnig má nota repjuolíu en það er meira bragð af henni)
 • 1,5 kg kartöflur – soðnar í 15 mínútur og síðan skornar í strimla eða litla báta

Orlydeig

 • 300 ml bjór
 • 1 msk sykur
 • 1 tsk salt
 • 1 msk olía
 • 1 eggjarauða
 • 285 g hveiti
 • 1 msk maizenamjöl
 • Aðeins af pipar
 • 1 eggjahvíta

Remúlaði

 • 1 dl sýrður rjómi
 • ½ dl majónes
 • ½ tsk dijon sinnep
 • 1 tsk kapers – saxað
 • ½ skarlottulaukur – saxaður
 • 1 msk fersk steinselja – söxuð
 • ½ tsk sykur
 • Ögn af pipar
 • 2 msk relish
 • Nokkrir dropar af sítrónusafa
 • Salt
 • Karrý á hnífsoddi

Coleslaw

 • 6 dl hvítkál – skorið í fínar ræmur
 • 2 dl gulrætur – rifnar
 • 1 dl majónes
 • 1 dl sýrður rjómi
 • ¼ dl hvítvínsedik
 • ¼ dl sykur
 • Tæplega 1 tsk sellerífræ (má sleppa)

Aðferð:

Orlydeig

 1. Bjór, hveiti, sykur, olía, maizenamjöl, pipar og eggjarauða pískað saman – látið standa í 1 klukkustund
 2. Eggjahvítan þeytt og blandað varlega saman við rétt áður en deigið er notað

Fiskur og kartöflur djúpsteikt

 1. Fiskur skorinn í bita
 2. Olía hituð í potti – gott að hafa yfirborðið sem mest svo hægt sé að djúpsteikja meira í einu
 3. Ágætt að djúpsteikja kartöflurnar fyrst – ofninn hitaður í u.þ.b. 150°C.  Kartöflur djúpsteiktar þar til kominn er fallegur litur á þær – settar á fat og þeim haldið heitum í ofninum
 4. Fiskbitum dýpt ofan í deigið og djúpsteikt í u.þ.b. 5 mínútur eða þar til kominn er fallegur litur á þá – sjá myndband
 5. Gott að setja fiskinn á eldhúspappír og láta olíuna renna aðeins af

Remúlaði

 1. Öllu hráefni blandað saman í skál og hrært saman

Coleslaw

 1. Öllu hráefni blandað saman. Hef ekki alltaf átt sellerífræ en það hefur ekki komið að sök

Meðlæti

Chilimæjó er einnig gott með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert