Þværðu þvottinn við rétt hitastig?

Brakandi ferskur og vel lyktandi þvottur er í uppáhaldi hjá …
Brakandi ferskur og vel lyktandi þvottur er í uppáhaldi hjá mörgum. Ljósmynd / Getty Images

Flest fylgjum við þvottaleiðbeiningum þegar flík er þvegin en oftar en ekki er æskilegt að breyta hitastiginu. Þó eru ákveðin atriði sem hafa ber í huga.

Mikilvægt er að þvotturinn geri sitt gagn og skili því sem þvegið er hreinu og án baktería. Að sama skapi eru þvottaefni ákaflega mengandi fyrir umhverfið auk þess sem mikil orka fer í að hita upp vatnið í vélinni því þvottavélar taka inn á sig kalt vatn.

Undir 30 gráðum: Fatnaður og annað sem venjulega er þvegið á 30-40 gráðum má hiklaust þvo á 15-20 gráðum að því gefnu að ekki sé um veruleg óhreinindi að ræða. Það sama gildir með bakteríur en allan þvott sem er með bakteríusmit skal þvo á 60 gráðum.

30 gráður: Þvottur sem er ekki blettóttur.

60 gráður: Rúmföt skyldi þvo á 60 gráðum enda geta þau innihaldið bæði rykmaura og bakteríur. Handklæði skyldi þvo endrum og eins við þetta hitastig en góð umhirða handklæða tryggir að sjaldnar þarf að þvo þau. Hengið þau því upp strax eftir notkun og látið lofta vel um þau ef kostur er. Virkilega skítugan fatnað skyldi einnig þvo á 60 gráðum – þá helst ef taldar eru líkur á bakteríusmiti.

90 gráður: Tuskur og viskastykki skyldi þvo á 90 gráðum og reyndar allt það sem hefur komist í kynni við líkamlega vessa og annað sem hefur komist í snertingu við bakteríur og gerla sem við viljum losna við.

Mikilvægt er að huga vel að hitastiginu sem notað er. Lægri hiti fer betur með flíkina auk þess að vera umhverfisvænni. Eins þarf ekki að nota jafnmikið magn af þvottaefni og framleiðendur gefa upp nema þvotturinn sé í þeim mun verra ástandi.

Hægt er að fá sérstök þvottaefni fyrir kaldan þvott en þau innihalda þá ensím sem leysa upp fitu og óhreinindi við lægra hitastig.

Mundu svo að ef þú þværð alla jafna á undir 30 gráðum er gott að leyfa vélinni að þvo á 90 gráðum endrum og eins til að hreinsa sig almennilega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka