Einfaldur og ofurhollur hafragrautur

Þessi grautur er svo mikil snilld því það þarf ekki að elda hann heldur útbúa hann kvöldinu áður og geyma hann svo í ísskáp yfir nótt og þá er hann tilbúinn morguninn eftir. Hann er fullkominn sem nesti í vinnuna eða skólann og eins ef maður er á hraðferð á morgnana og nennir engu veseni. Hann er ofurhollur og dásamlega góður.

Einfaldur og ofurhollur hafragrautur

  • Fyrir: 1
  • Undirbúningur: 5 mínútur

Innihald

  • 1 1/2 dl tröllahafrar
  • 2 dl möndlumjólk
  • 1/2 dl lífrænt kókosmjöl
  • 2 góðar msk grísk jógúrt (mér finnst með vanillu og kókos frá Örnu æði)
  • smá skvetta akasíuhunang
  • hindber á toppinn

Aðferð

Blandið öllu saman í glerkrukku og hrærið vel. Setjið smá akasíuhunang ofan á og svo hindber (eða þau ber sem þið eigið til). Setjið krukkuna inn í ísskáp og látið standa yfir nótt. Einfaldara gerist það ekki!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert