Algeng mistök þvottavélaeigenda

Góð þvottavél er gulli betri.
Góð þvottavél er gulli betri.

Það er ástæða fyrir því að viðgerðarmenn ranghvolfa oft í sér augunum þegar óánægðir viðskiptavinir hafa samband og kvarta sáran undan því að þvottavélin sé ekki í lagi. 

Hjón nokkur í Laugarneshverfinu sem eru almennt talin nokkuð skörp fjárfestu fyrr á þessu ári í nokkuð vandaðri þvottavél. Eitthvað var þó að vélinni og ítrekað kom þvotturinn út í tómu tjóni. Frúin bar sig illa enda voru íþróttafötin hennar nokkuð löskuð, viðkvæmur nærfatnaður skemmdur og steininn tók úr þegar forláta prjónapeysa frá Lettlandi hljóp um nokkrar stærðir. 

Pirruð og reið hringdi hún á verkstæðið og sagði farir sínar ekki sléttar. Viðgerðarmaður ætlaði að koma við daginn eftir og athuga hvað plagaði vélina enda var þetta í meira lagi skrítið. 

Daginn eftir dregur svo eiginmaðurinn vélina fram til að viðgerðarmaðurinn hefði betri aðgang að vélinni. Hann tók upp símann og hringdi í frúna. Bað hana vinsamlegast um að afpanta viðgerðarmanninn því í ljós hefði komið að heita vatnið var tengt við vélina í stað þess kalda. Af því var ljóst að vélin var alltaf að taka inn á sig 80 gráðu heitt vatn sem útskýrir af hverju fatnaðurinn eyðilagðist unnvörpum. 

Önnur saga er af konu nokkurri sem fór og keypti sér nýja þvottavél þar sem sú gamla virkaði ekki lengur. Þegar nýja vélin var tengd kom í ljós að hún var líka biluð. Hringt var í viðgerðarmann sem var fljótur að greina bilunina. Innstungan virkaði ekki sem þýddi jafnframt að gamla vélin var enn í toppstandi. 

Enn ein sagan var af eignmanni nokkrum sem var beðinn um að hengja þvottinn út á snúru. Þegar frúin leit út um gluggann sá hún að eiginmaðurinn hafði vissulega gert það. Hann hafði samviskusamlega hengt upp netapokann sem innhélt nærfatnað frúarinnar en lét það ógert að taka nærfötin úr pokanum. 

Ljósmynd/skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert