Ostabúðin með „pop-up“ á Hlemmi

mbl.is/

Ostóbergleðin er í fullum gangi þessa dagana og íslenskir ostaunnendur láta sig svo sannarlega ekki vanta á þá veitingastaði sem taka þátt í gleðinni. Sautján staðir víðs vegar um landið hafa útbúið sérstaka ostarétti á matseðlum sínum sem eru í boði dagana 15.-31. október.

Réttirnir eru eins ólíkir og þeir eru margir og er bæði gaman og forvitnilegt að sjá hvernig ólíkir veitingamenn og -staðir meðhöndla sömu ostana. Við litum í heimsókn í Mathöllina við Hlemm þar sem Ostabúðin á Skólavörðustíg hefur sett upp „pop-up“-stað meðan á Ostóber stendur. Þar standa vaktina þau Unnur Björk Jóhannsdóttir og Andri Már Hagalín og er óhætt að segja að þar fari fólk sem veit sínu viti þegar kemur að samsetningu á girnilegum ostabökkum og þau vita upp á hár hvernig á að gleðja bragðlaukana.

mbl.is/

Cheddar með súkkulaði, Óðalsostur með hunangi og kaffi og fjögurra ára sterkur Gouda er meðal þess sem boðið er upp á en í mestu uppáhaldi þessa dagana er; að öðrum ostum ólöstuðum, nýr Óðals Gull Tindur 12+ sem hefur fengið að þroskast í 12 mánuði eða lengur. Osturinn er stór og kringlóttur, hjúpaður svörtu vaxi. Vaxið hefur áhrif á þroskun ostsins og gefur honum bæði sérstaka áferð og sterkt bragð þar sem kristallamyndun og sætukeimur mætast á einstakan hátt. Sem stendur er osturinn aðeins seldur á íslensk veitingahús en almenningur þarf vonandi ekki að bíða lengi þangað til hann ratar í verslanir.

Meðal annarra staða sem taka þátt í Ostóber má nefna, Krydd í Hafnarfirði, Mathöllina Granda, Skyrgerðina í Hveragerið, Ottó veitingahús á Höfn, Veitingahúsið Sölku á Húsavík, KKrestaurant á Sauðárkróki og Sker veitingahús í Ólafsvík, en lista yfir alla staði má finna HÉR.

mbl.is/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert