Aldur eggjanna getur ráðið úrslitum í bakstrinum

Sörur eru eitt af því besta sem til er.
Sörur eru eitt af því besta sem til er. Ljósmynd/Berglind Guðmundsdóttir

Egg eru ekki bara egg heldur skiptir aldur eggsins líka gríðarlega miklu máli. Þannig getur heil uppskrift farið fjandans til ef eggið er gamalt. 

Gott dæmi um þetta er sörubakstur en í grunnkökuna á sörum þarf malaðar möndlur, flórsykur, eggjahvítur og salt. 

Sé eggið glænýtt verður kakan afskaplega bústin og fín en sé eggið gamalt þá flest kakan út eins og pönnukaka á plötunni. 

Margir hafa lent í þessu og skilja ekkert í því en skýringin er í raun einföld. 

Þó að egg endist töluvert lengi þá byrja þau að eldast um leið og þeim er verpt (eðlilega). Bæði hvítan og rauðan eru með lágt ph-gildi auk þess sem efnafræðileg uppbygging þeirra er eins fersk og hugsast getur og allar himnur eru í góðu lagi.

Í eggjahvítunni eru próteinin mjög þétt og eiga það til að hópa sig saman. Það sem gerist þegar egg eldist er að eggin verða smám saman basískari (ph-gildið hækkar) sem veldur því að tengslin milli próteinana rofna sem gerir eggjahvítuna óþéttari. Sem getur gjörsamlega klúðrað bakstrinum. 

Slæmu fréttirnar eru þær að það er afskaplega erfitt að finna út aldur eggjanna nema þekkja bóndann - nú eða hænuna - sjálfur. 

Sörur með kirsuberjakremi eru girnilegar.
Sörur með kirsuberjakremi eru girnilegar. Ljósmynd/Berglind Guðmundsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert