Jólabjórinn á dúndrandi útsölu

Jólin eru senn á enda og þar sem jólabjórinn er árstíðabundin vara er henni skilað til framleiðanda þar sem henni er fargað. Til að stemma stigu við þessari sóun hefur Viking brugghús nú lækkað verð á jólabjórnum sem nemur allt að 30 prósentum.

Að sögn Hilmars Geirssonar, vörumerkjastjóra hjá Viking brugghúsi, hefur þessi aðgerð fyrirtækisins mælst vel fyrir hjá neytendum. „Undanfarin tvö ár höfum við gert tilraun með að lækka verð á þeim jólabjór sem ekki seldist í desember og sú aðgerð reyndist mjög vel. Það lá því beinast við að endurtaka leikinn núna í ár. Reglurnar í ÁTVR eru þannig að árstíðabundnar vörur eins og jólabjór eru einungis til sölu í ákveðinn tíma og eftir þann tíma dettur bjórinn úr sölu í öllum Vínbúðum. Þá er óseldur bjór sendur aftur til birgja og honum fargað. Jólabjórinn sem við erum með sölu í ÁTVR er á þessum tímapunkti í mjög góðu ástandi og um fullgóðan bjór að ræða sem rennur ekki út fyrr en næsta haust. Til þess að koma í veg fyrir þessa sóun á matvælum og í leiðinni koma til móts við neytandann höfum við ákveðið að lækka verðið á jólabjór, frá okkur í ÁTVR, þar til hann dettur úr sölu eða klárast.“

Verðlækkun fer eftir tegundum en er á bilinu 20% - 30% af útsöluverði ÁTVR og því er um töluverða lækkun að ræða. „Vonandi verður þetta til þess að neytendur sjái sér hag í því að drekka jólabjór aðeins lengur og minnka þannig í leiðinni magnið af  bjór sem þarf að farga,“ segir Hilmar að lokum og ljóst að margir munu gera sér ferð í Vínbúðirnar í dag til að krækja sér í tilboðsbjórinn góða. 

Jólabjórinn er nú kominn á útsölu eins og önnur jólavara.
Jólabjórinn er nú kominn á útsölu eins og önnur jólavara. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is