La Primavera kominn til að vera vegna fjölda áskorana

mbl.is/aðsend

Hinn margrómaði ítalski veitingastaður La Primavera var nýlega enduropnaður í Marshallhúsinu úti á Granda, en La Primavera á sér langa sögu og fjölmarga aðdáendur sem syrgðu hann sárt þegar hann lagðist til svefns árið 2011. Sagan á bak við endurkomuna er nokkuð áhugaverð og segja má að eitt hafi leitt af öðru.
 
Leifur Kolbeinsson, eigandi og yfirmatreiðslumeistari La Primavera, á að baki langan og farsælan feril í veitingahúsarekstri í Reykjavík. La Primavera hóf rekstur sinn upphaflega í Húsi verslunarinnar árið 1993 en árið 1996 flutti staðurinn á 2. hæð Austurstrætis 9 í Reykjavík og var starfræktur þar óslitið til ársins 2011. 
 
Þegar ákveðið var að loka La Primavera árið 2011 hafði Leifur tekið við rekstri Kolabrautarinnar í Hörpu og ljóst að sá umfangsmikli rekstur myndi taka allan hans tíma og orku. La Primavera var því lagður til svefns fremur en lokað, með því loforði að staðurinn kynni að opna aftur síðar.
 
Snemma árs 2017 opnaði Leifur Marshall Restaurant & Bar, á jarðhæðinni í nýuppgerðu Marshallhúsi úti á Granda, þar sem lögð var áhersla á Miðjarðarhafseldhús. Auk veitingareksturs er í húsinu rekin öflug menningarstarfsemi, en þar hafa aðsetur Nýlistasafnið, gallerí Kling & Bang og Stúdíó Ólafs Elíassonar.

mbl.is/aðsend


Síðasta sumar fékk Stúdíó Ólafs Elíassonar staðinn lánaðan í þrjá mánuði og var þá rekið tímabundið rými helgað matargerðarlist á Marshall Restaurant & Bar. Uppátækinu var vel tekið og eftir þetta frábæra fordæmi kom upp sú hugmynd að vekja La Primavera upp af værum blundi og opna hann tímabundið í þrjá mánuði á Marshall Restaurant & Bar, en þá voru 25 ár síðan staðurinn var stofnaður. 
 
La Primavera hafði ekki verið opinn lengi þegar fjöldi áskorana fór að berast um að hafa staðinn opinn til frambúðar. Þar sem viðtökurnar fóru fram úr björtustu vonum var ákveðið að bregðast við þeim áskorunum og opna La Primavera aftur, varanlega í þetta skipti.
 
La Primavera þakkar þessar frábærar móttökur og hlakkar til að gleðja gesti sína áfram með mat og drykk, að hætti Ítala.

mbl.is/aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert