Fermingarkakan 2019

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Hér gefur að líta skref-fyrir-skref leiðavísi að því hvernig á að baka stórglæsilega köku án þess að ofanda eða falla í yfirlið. Það er auðvitað engin önnur en Berglind Hreiðarsdóttir á Gotteri.is sem er meistarinn á bak við þessa köku.

Kakan er súkkulaðikaka á tveimur hæðum með jarðaberja smjörkremi og Mars-sósu á milli laga, skreytt að utan með vanillu smjörkremi. Neðri hæð inniheldur fjóra þunna botna og krem í þremur lögum á meðan efri kakan inniheldur sex þunna botna og krem í fimm lögum.

Mikilvægt er að nota plaststoðir og pappaspjald á milli hæða til að halda minni kökunni á lofti. Ástæðan fyrir því að gott er að nota Betty Crocker vanillukremið í hjúpinn sjálfan og skreytinguna er sú að það er skjannavítt en ekki gulleitt eins og hefðbundið smjörkrem en að sjálfsögðu  er hægt að nota hvaða kökuuppskrift, kremtegund og liti sem er í þessa skreytingu.

Botnar

  • 2 x Betty Crocker Devils Food Cake Mix
  • 8 egg
  • 250 ml matarolía
  • 500 ml vatn
  • 5 msk. bökunarkakó
  • 1 pk. Royal súkkulaðibúðingur

Aðferð:

  1. Setjið egg, olíu og vatn í skál og hrærið saman.
  2. Bætið þá kökumixi og bökunarkakói saman við og hrærið í nokkrar mínútur, skafið niður á milli.
  3. Að lokum fer búðingurinn (aðeins duftið) út í deigið og hrært þar til blandað, alls ekki of lengi.
  4. Skiptið deiginu niður í vel smurð form. Um er að ræða 3 x 15 sm form (um 320-330 g af deigi í hvert) og 2 x 20 sm form (um 510-520 g af deigi í hvort).
  5. Bakið botnana í 25-28 mínútur eða þar til þeir losna aðeins frá köntunum og kælið vel á grind.
  6. Skerið aðeins ofan af hverjum botni til að slétta þá betur (þó ekki taka of mikið, bara rétt ofan af, krem fyllir upp í aðrar ójöfnur á hliðunum síðar).
  7. Þegar búið er að skera ofan af hverjum botni má taka hann í tvennt með kökuskera. Þá eruð þið komin með sex 15 sm botna og fjóra 20 sm botna.

Vanillusmjörkem (Kantur á milli laga)

Þar sem kakan er hjúpuð með hvítu smjörkremi er mikilvægt að sprauta kant (nokkurs konar slöngu) meðfram ysta hluta hvers botnar og setja síðan jarðaberjasmjörkem og Mars-sósu upp að þessum kanti áður en næsti botn fer ofan á. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir að bleikur litur af jarðaberjakreminu eða brúnn af Mars-sósunni smitist í hjúpinn.

Best er að vinna neðri hæðina á þeim kökudisk sem kakan á að fara á og efri hæðina á pappaspjaldinu sjálfu og færa hana síðar yfir á neðri hlutann. Gott er að koma plaststoðum strax fyrir í neðri hlutanum og tryggja allar súlur séu jafn háar og í línu við efstu mörk. Kemhjúp er síðan smurt á hliðar og topp (yfir stoðirnar).

  • 2 x Betty Crocker Vanilla Frosting
  • 250 g flórsykur
  • Blandið kremi og flórsykri saman þar til þykkt og hvítt krem hefur myndast.
  • Setjið krem í sprautupoka og notið hringlaga stút um 1 sm í þvermál (eða klippið gat á sprautupoka) og sprautið um ½ sm háan kant allan hringinn á hverjum botni. Fyllið síðan upp í með jarðaberjasmjörkemi (sjá uppskrift að neðan) og Mars-sósu (sjá uppskrift að neðan). Leyfið Mars-sósunni að leka óreglulega úr skeið yfir jarðaberjakremið og notið um 3 kúfaðar teskeiðar á hvern 15 sm botn og um 5 kúfaðar á hvern 20 sm botn (óþarfi að þekja alveg með sósu, bara dreifa óreglulega yfir)

Jarðaberja smjörkrem (Á milli laga)

  • 160 gr smjör við stofuhita
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 750 gr flórsykur
  • 200 gr fersk jarðaber (maukuð)

Aðferð:

  1. Setjið smjör og vanilludropa í hrærivél og þeytið saman þar til létt.
  2. Maukið jarðaberin í matvinnsluvél/blandara.
  3. Bætið flórsykrinum saman við smjörblönduna smátt og smátt til skiptis við jarðaberjamaukið og skafið niður á milli.
  4. Hrærið þar til slétt og felt og smyrjið á milli laga og dreifið svo Mars-sósunni yfir jarðaberjakremið (hvorutveggja innan hvíta kantsins).

Mars-sósa (Á milli laga)

  • 8 Mars stykki
  • 200 ml rjómi

Aðferð:

  1. Rífið súkkulaðið niður í nokkra hluta og setjið í pott og hellið rjómanum yfir.
  2. Hitið við meðalháan hita og hrærið vel í þar til bráðið.
  3. Hellið í skál og látið standa þar til blandan nær stofuhita (annars gæti hún brætt smjörkremið).

Vanillusmjörkrem (Hjúpur og skreyting)

  • 3 x Betty Crocker Vanilla Frosting
  • 300 g flórsykur

Aðferð:

  1. Blandið kremi og flórsykri saman þar til slétt og fínt hvítt krem hefur myndast.
  2. Byrjið á því að hjúpa hvora köku um sig og leyfa kreminu aðeins að storkna/kólna. Þetta kremlag á að vera þunnt og aðeins til að binda alla kökumylsnu.
  3. Næst fer seinna kremlag á kökuna og er gott að miða við um ½ cm þykkt krem allan hringinn. Best er að bera kremið á með kökuspaða og gera sitt besta í að hafa jafn þykkt lag af kremi allan hringinn og toppinn sléttan.
  4. Efri kakan er há svo það er mikilvægt að fara varlega þegar kreminu er smurt bæði á milli botna og utan á hana til þess að hún skekkjist ekki. Gott er síðan að stinga henni í frystinn á meðan neðri botninn fær seinni kremumferð og krem er litað fyrir skreytinguna.

Samsetning og skreyting

  1. Þegar báðar kökur hafa verið hjúpaðar er komið að því að setja kökuna saman og skreyta hana.
  2. Notið restina af kreminu til að búa til þá liti sem ykkur langar til þess að skreyta með. Í þessu tilviki blandaði ég fjólubláum og bleikum matarlitum saman í nokkrum tónum til að ná fram túlípanalitnum og hafði smá hvítt líka með. Leggið þessar skálar til hliðar og setjið hæðarnar saman.
  3. Takið efri kökuna úr frystinum og lyftið henni beint ofan á stoðirnar svo pappaspjaldið sem nú á að vera hulið kremi sitji þar vel.
  4. Næst má leika sér með litina og skreytinguna en ég notaði lítinn kökuspaða til að dreifa litlu magni af smjörkremi óreglulega á kökuna. Mikilvægt að skafa spaðann og skola/þurrka á milli hvers lit nema þið vijlið blanda þeim enn frekar saman auðvitað.
  5. Að lokum klippti ég túlípana og notaði lítinn spotta til þess að vefja utan um efri hlutann og festa þannig túlípanana (keypti þetta band í Blómaval).
  6. Skiltið á toppnum er síðan keypt í Hlutprent og setur punktinn yfir I-ið.
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert