Besta páskaeggið í ár?

mbl.is/Unicef

Páskaegg UNICEF á Íslandi komu í sölu sem Sannar gjafir nú rétt fyrir helgi. Viðbrögðin hafa verið afar jákvæð, enda ekki um nein hefðbundin páskaegg að ræða. Þau eru til dæmis 100% sykur- og súkkulaðilaus, vegan og vistvæn, henta vel þeim sem eru á sérstöku mataræði og eru fullkomin fyrir meðvitaða neytendur.

Yfir helgina seldust tæplega 100 páskaegg í vefverslun UNICEF, og salan er rétt að byrja. „Það er virkilega gaman að sjá hvað margir hafa kosið að kaupa eggin okkar bæði sem gjöf eða handa sjálfum sér sem viðbót við gamla góða súkkulaðieggið, enda engin nauðsyn að velja bara annað hvort. Margir vilja meina að neyðareggið sé besta páskaeggið í ár,“ segir Steinunn Jakobsdóttir, kynningarstjóri UNICEF á Íslandi.

Eins og hjá flestum páskaeggjaframleiðendum er úrvalið fjölbreytt. Í ár býður UNICEF upp á þrjú mismunandi egg í mismunandi stærðum sem eiga það öll sameiginlegt að hjálpa börnum í neyð:

Neyðareggið breytir óhreinu vatni í drykkjarvatn

Neyðareggið er ekki eins og önnur páskaegg, það er einfaldlega miklu betra. Eggið inniheldur 3.500 vatnshreinsitöflur sem hreinsa samtals 17.500 lítra af vatni. UNICEF sendir töflurnar á svæði þar sem hreint vatn er af skornum skammti, eins og til dæmis í Bangladess og Mósambík. Þessar bráðsniðugu töflur geta á örskotsstundu galdrað fram drykkjarhæft vatn úr óhreinu vatni og með því komið í veg fyrir útbreiðslu lífshættulegra smitsjúkdóma eins og kóleru.

Hjálpareggið læknar vannæringu

Hjálpareggið gegnir lykilhlutverki á svæðum þar sem börn eru í lífshættu vegna vannæringar, meðal annars í Mið-Afríkulýðveldinu og Jemen. Eggið er nefnilega fyllt með vítamínbættu jarðhnetumauki sem inniheldur öll nauðsynleg næringarefni, vítamín og steinefni sem vannærð börn þurfa. Í flestum tilfellum þurfa börn einungis þrjá pakka á dag í fáeinar vikur til að ná fullum bata. Með því að kaupa hjálparegg hjálpar þú börnum sem þjást vegna vannæringar.

Páskaeggið er 100% sykurlaust og stútfullt af næringarefnum

Þetta páskaegg er stærsta egg UNICEF í ár og stútfullt af næringarefnum. Í egginu eru 1.500 vatnshreinsitöflur sem hreinsa rúmlega 7.500 lítra af vatni, 15 skammtar af jarðhnetumauki, 4 lítrar af næringarmjólk og 50 skammtar af næringardufti. Þetta páskaegg mun því gera kraftaverk fyrir börn sem þurfa á hjálpinni að halda.

Þú getur nælt þér í páskaegg á www.sannargjafir.is.

mbl.is/Unicef
mbl.is/Unicef
mbl.is