Súkkulaði er grænmeti í dulbúningi

Súkkulaði er meinhollt fyrir okkur - það er vísindalega sannað.
Súkkulaði er meinhollt fyrir okkur - það er vísindalega sannað. mbl.is/Getty Images

Það þarf ekki neina ástæðu til að sannfæra okkur um að borða súkkulaði og fyrir okkur sem getum ekki haldið okkur frá slíku góðgæti, þá eru hér mjög góðar fréttir.

Það eru ekki nema um 20 ár síðan súkkulaði fór að vera álitið matvara sem örvar mann - og fyrir utan að smakkast unaðslega þá er það meinhollt fyrir okkur líka. Sumir vilja kalla þetta grænmeti í dulbúningi. En hér erum við að vísa í 70% súkkulaði sem er mun hollara en annað.

Þrýstingurinn
Dökkt súkkulaði getur lækkað blóðþrýsting og á sama tíma virkar kakóið sem blóðþynnandi sem spornar við blóðtappa, bólgum í æðum og æðakölkun.

Gleðisprengja
Kakóbaunir og þar með súkkulaði er sannkölluð gleðisprengja. Dökkt súkkulaði örvar bæði framleiðslu endorfíns og serótónins í heilanum – hormón sem ýta undir ánægju, vellíðan og minnka streitu.

Blóðsykur
Hjartað fagnar súkkulaði! Hrátt kakó hjálpar nefnilega til við að jafna blóðsykurinn. Og samkvæmt rannsókn er gerð var á Ítalíu eykur dökkt súkkulaði næmni insúlíns og dregur þar með úr hættu á sykursýki.

Meltingin
Dökkt súkkulaði er fullt af trefjum og hjálpar til við að „mata“ góðu bakteríurnar í þörmunum. Og kakó inniheldur koffín sem ýtir við þörmunum og hjálpar til við meltinguna.

Sárin gróa hraðar
Kakó inniheldur sink, sem er steinefni fullt af góðum eiginleikum. Sink leikur mikilvægt hlutverk í að græða sár, svo með því að borða dökkt súkkulaði getur þú stutt líkamann í heilunarferli.

Eykur minnið
Heilinn elskar súkkulaði. Dökka súkkulaðið eykur blóðflæðið í líkamanum og til heilans sem er svo mikilvægur fyrir okkur til að muna og vinna úr gögnum. Í rannsókn sem gerð var á 1.000 einstaklingum og fylgt var eftir í áraraðir voru það þeir einstaklingar sem borðuðu reglulega súkkulaði sem höfðu besta minnið og voru betri í að leysa úr hlutunum en aðrir.

Aukin orka
Kakó inniheldur ekki bara sink, því það er ríkt af steinefninu magnesíum sem styrkir m.a. bein og vöðva. Þar fyrir utan er magnesíum mikilvægt fyrir orkuna þína og vinnur á móti þreytu og máttleysi.

Bólgur
Nýjar rannsóknir hafa sýnt að þarmarnir breyta kakóinnihaldinu í efnasambönd sem geta hjálpað til við að draga úr langvarandi bólgum í líkamanum.

Grennir – bætir – kætir
Ef þú ert í aðhaldi á mat og drykk getur þú alveg rólega fengið þér dökkt súkkulaði. Dökka súkklaðið liggur nefnilega lengur í maga en annað súkkulaði og sendir skilaboð til heilans um að hann sé saddur. Og þegar heilinn fær þessi skilaboð, þá hættir hann að biðja um fleiri kalóríur.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

mbl.is