Einkennileg egg valda usla í Tókýó

mbl.is/skjáskot

Öll þekkjum við egg og höfum flest borðað þau með reglubundnu millibili alla okkar ævi. Því er ekki að undra þótt fólk hafi hrokkið við þegar það fékk matinn sinn á veitingastað í Disneygarðinum í Tókýó og við blasti egg með eggjarauðu sem var í laginu eins og Mikki mús.

Eins og flest vitiborið fólk veit er útilokað fyrir hænu að verpa músarlaga eggjarauðu og þrátt fyrir að Disney haldi því fram að skemmtigarðurinn sé töfrum líkastur eru engir töfrar í spilinu hér.

Disney hefur ekki enn svarað fyrirspurnum fjölmiðla um hvernig þetta er gert en líklegasta skýringin er sú að búið sé að smíða vél sem aðskilur hvítuna og rauðuna. Svo séu þær formaðar og eldaðar hvor í sínu lagi og settar saman á ný.

mbl.is/skjáskot
mbl.is