Hvert fara útrunnin lyf og lyfjaspjöld?

okskaz,Thinkstock.com

Flest reynum við eins og við getum að hugsa sem best um umhverfið og því skiptir miklu máli að vita hvað beri að gera við útrunnin lyf og lyfjaspjöld. Ekki hendir maður þeim í ruslið? Og því síður í næsta niðurfall.

Samkvæmt vef Lyfjastofnunar ber að skila lyfjum til eyðingar í apótek. Ekki er þörf á að skila pappírsumbúðum utan af lyfjum, þær á frekar að flokka með öðrum pappírsúrgangi.

Sprautum og sprautunálum skal skila í apótek í lokuðum ílátum til að koma í veg fyrir að starfsmenn skaði sig á oddhvössum hlutum. Hægt er að fá sérstök nálabox í apótekum.

Öllum íslenskum apótekum ber skylda til að taka á móti lyfjum frá einstaklingum til eyðingar.

Einhverjum hefur fundist að apótek ættu að endurgreiða þau lyf sem skilað er en apótekum er ekki heimilt að selja öðrum þau lyf sem skilað er þótt um óáteknar lyfjapakkningar sé að ræða og lyfin ekki runnin út. 

Þegar apótek hafa tekið við lyfjum til eyðingar er þeim komið í örugga eyðingu hjá fyrirtækjum sem hafa leyfi Umhverfisstofnunar til að eyða slíkum úrgangi.

Niðurstöður könnunar sem unnin var fyrir Lyfjastofnun í nóvember 2016 sýna að rúmlega þriðjungur Íslendinga hendir lyfjum í rusl, vask eða klósett. Ef lyfjum er hent í rusl, vask eða klósett getur það haft skaðleg áhrif á umhverfið.

Mikilvægt er að hafa í huga að lyf sem hent er í rusl, vask eða klósett geta borist út í náttúruna. Lyf sem berast út í náttúruna geta skaðað umhverfið. Sem dæmi má nefna að sýklalyf hafa áhrif á umhverfið á þann hátt að bakteríur verða ónæmar fyrir lyfjunum. Það getur síðan leitt til þess að erfitt verður að ráða við sýkingar því lyfin virka þá ekki lengur á bakteríurnar. Þá er líka þekkt að hormónar og efni frá lyfjum sem orsaka hormónabreytingar, t.d. estrógen í getnaðarvarnartöflum, getur leitt til þess að karlkyns fiskar og froskar verði tvíkynja sem dregur úr hæfileika þeirra til æxlunar.

Mikilvægt er að tryggja rétta förgun lyfja sem eru útrunnin …
Mikilvægt er að tryggja rétta förgun lyfja sem eru útrunnin og/eða ekki er þörf fyrir. Friðrik Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert