Snickerskakan sem allir elskuðu

Ljósmynd/María Gomez

Til eru kökur sem eru svo magnaðar að þeirra er minnst löngu eftir að þeirra var neytt. Snickerskakan úr gamla Fjarðarbakaríinu í Hafnarfirði er ein þeirra en þar sem hún hefur verið ófáanleg í lengri tíma langaði Maríu Gomez á Paz.is að freista þess endurskapa hana. Hún segir útkomuna hafa verið framar björtustu vonum og því deilum við dýrðinni með ykkur.

Snickerskakan sem allir elskuðu

Svampbotn:

  • 2 egg
  • 90 gr sykur (30 gr og 60 gr)
  • 4 msk mjólk
  • 20 gr ósaltað smjör
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 65 gr hveiti
  • 1 tsk vanilludropar
  • ½ tsk salt
  • ¼ tsk cream of tartar

Aðferð:

  1. Hitið saman í potti smjör, mjólk og 30 gr af sykrinum þar til sykurinn er alveg bráðnaður
  2. Aðskiljið næst hvítur og rauður og setjið til hliðar meðan blandan rétt kólnar
  3. Setjið næst blönduna í skál og bætið við einni eggjarauðu í einu og hrærið í fimm sekúndur. Hér er alveg nóg að hræra deigið saman með písk, þarf ekki handþeytara né hrærivél
  4. Sigtið svo út í skálina hveiti, lyftidufti og cream of tartar og setjið salt út í og hrærið saman með písk
  5. Leggið til hliðar og stífþeytið eggjahvíturnar, vanilludropa og 60 gr af sykrinum þar til orðið alveg stíft
  6. Þá er eggjahvítunum bætt út í deigið ofurvarlega með sleikju þar til allt er vel blandað saman
  7. Setjið í 26 cm form og bakið í 20-25 mínútur við 185 C°blástur
  8. Kælið alveg áður en sett er á botninn

Rjómalag á milli:

  • 4,5 dl rjómi þeyttur (eða restin af 500 ml fernu þegar búið er að taka af fyrir karamelluni)
  • ½ tsk. cream of tartar
  • 50 gr flórsykur
  • Dökkir súkkulaðidropar skornir smátt 1/2- 1 dl (magn eftir smekk)

Aðferð:

  1. Hellið rjóma í hrærivélarskál og setjið flórsykur og cream of tartar út í
  2. Þeytið þar til rjóminn er vel stífur
  3. Skerið súkkulaðidropana örlítið smærri ef þeir eru stórir en ef þið finnið litla sleppið því þá
  4. Hrærið súkkulaðidropunum varlega við rjómann með sleikju eða sleif

Karamella ofan á:

  • 300 gr eða tveir pakkar af Walkers salted caramel toffees (fást í Bónus)
  • ½ dl rjómi og 1/2 dl nýmjólk
  • 1 tsk. gróft salt (verður að vera gróft)
  • 2 dl salthnetur

Aðferð:

  1. Setjið rjóma, mjólk og karamellur saman í pott við miðlungshita og bræðið saman
  2. Passið vel að brenna ekki og verið dugleg að hræra reglulega í meðan bráðnar saman
  3. Þegar allt er vel brætt saman, takið þá af helluni og setjið eitt lag af karamellu yfir svampbotnin, bara þunnt til að bleyta hann aðeins
  4. Bætið svo salthnetunum út í restina af karamelluni í pottinum
  5. Látið kólna þannig mesti hitinn er farinn úr en má ekki vera orðin alveg stíf, svo hægt verði að dreifa henni yfir rjómann
Ljósmynd/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert