Þétt og blaut brownie með óvæntu leynihráefni

Ljósmynd/Linda Ben

Lindu Ben bregst ekki bogalistin hér fremur en fyrri daginn en eins og aðdáendur hennar vita sjálfsagt flestir þá eignaðist hún sitt annað barn fyrir nokkrum dögum. Undurfagra stúlku sem er strax byrjuð að bræða hjörtu.

Þessi dásemdar uppskrift er til þess fallinn að græta gott fólk þar sem hún er svo góð á bragðið enda notar Linda leynihráefni sem ætti að slá einhverja út af laginu - rækilega!

Hér erum við að tala um kaffi- og súkkulaði gríska jógúrtin frá Örnu sem margir fullyrða að sé besta skyr sem framleitt hefur verið.

Þétt og blaut brownie

 • 175 g dökkt súkkulaði
 • 60 g smjör/smjörlíki
 • 2 ¼ dl sykur
 • 350 g Kaffi og súkkulaði grísk jógúrt frá Örnu Mjólkurvörum (ein full dós og 3/4 af annari)
 • 2 tsk vanilludropar
 • 4 egg
 • 1 ¼ dl möndlumjöl
 • 1 ¼ dl kakó
 • ½ tsk sjávarsalt

Krem

 • 200 g dökkt súkkulaði
 • 2 dl rjómi frá Örnu Mjólkurvörum

Aðferð:

 1. Stillið ofninn á 175°C, undir og yfir hita.
 2. Bræðið saman súkkulaðið og smjörið yfir vatnsbaði eða inn í örbylgju og blandið saman saman. Bætið sykrinum saman við ásamt gríska jógúrtinu og vanilludropunum, blandið saman. Setjið eitt egg út í í einu og hrærið á milli.
 3. Blandið saman möndlumjöli, kakóinu og sjávarsalti í aðra skál og bætið því svo saman við súkkulaðiblönduna.
 4. Smyrjið 25×25 form og hellið deiginu í formið. Bakið inn í ofni í 30-40 mín eða þar til endarnir eru byrjaðir að losna frá hliðum formsins.
 5. Á meðan kakan er inn í ofninum búið þá til kremið. Hitið rjóma í potti þar til hann er nánast byrjaður að sjóða. Setjið súkkulaðið í skál og hellið heitum rjómanum yfir súkkulaðið, hrærið saman þar til krem myndast.
 6. Takið kökuna úr forminu og leyfið henni að kólna á grind, hellið kreminu yfir. Skerið kökuna svo í bita.
Ljósmynd/Linda Ben
mbl.is