Krónan fær Svansvottun

Guðmundur Ingi, umhverfisráðherra og Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar.
Guðmundur Ingi, umhverfisráðherra og Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar. Ljósmynd/Birgir Ísleifur

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, veitti Krónunni svansvottun fyrir tvær verslanir, verslun að Akrabraut í Garðabæ og verslun fyrirtækisins í Rofabæ í Árbæ. Um tímamótaskref er að ræða í sögu umhverfisvottunar hér á landi, þar sem þetta er í fyrsta skipti sem verslun fær Svansvottun.

„Það er gríðarlega verðmætt fyrir Umhverfisstofnun að fá inn Svansleyfishafa sem er sýnilegur í umræðunni í samfélaginu og nálægt neytendum,“ segir ElvaRakel Jónsdóttir, sviðstjóri hjá Umhverfisstofnun.

Viðmið Svansins fyrir dagvöruverslanir

Viðmið Svansins fyrir dagvöruverslanir voru upprunalega þróuð árið 2003 og hafa tekið nokkrum breytingum síðan þá. Vottunin er heildræn nálgun á þeim umhverfisávinningi sem má ná af rekstri dagvöruverslana. Þar ber helst að nefna vöruúrval, orkunotkun, úrgangsstjórnun og matarsóun. Einnig er hugað að innkaupum verslananna sjálfra þar sem lögð er áhersla á umhverfisvottaðar vörur og þjónustu. Svansvottun hér á landi er eitt af fjölþættum verkefnum Umhverfisstofnunar að því að fram kemur á vef Umhverfisstofnunar.

mbl.is