Borðaði súpu og 12 möndlur á dag í viku

Föstur eru það heitasta heitt þessi dægrin en það eru ekki allir sem treysta sér til að neyta einungis vatns í lengri tíma. Til að koma til móts við það fólk þróaði dr. Valter Longo föstu sem kallast Fast Mimicking Diet eða FMD og líkir eftir föstu að mörgu leyti en alls ekki öllu.

Á FMD borðar þú 1.100 hitaeiningar fyrsta daginn og síðan 800 hitaeiningar næstu fjóra daga. Erlendis er hægt að panta sérstaka matarpakka fyrir FMD en þeir eru dýrir og því ákvað Chris Bigelow að gera þetta sjálfur og endaði á að kosta litlu til.

Hann „fastaði" í fimm daga og sagðist ekki hafa fundið til mikills hungurs eða sveiflna eins og hann hafði gert þegar hann tók hreinar föstur. Hann hafi haldist í mun betra jafnvægi — bæði andlega og líkamlega en hann mældi reglulega blóðsykurinn og fylgdist vel með og skrásetti.

Árangurinn hafi verið eins og hann bjóst við. Hann léttist um tvö kíló en þau komu fljótt aftur þegar hann fór að borða enda segir hann að þyngdartap hafi ekki verið markmiðið og að hann hafi að öllum líkindum innbyrt 4-5.000 hitaeiningar daginn eftir að hann hætti að fasta.

Heilt yfir var Bigelow mjög sáttur við valkostinn sem FMD býður upp á. Hann spáir þessum valkosti vinsældum þar sem ávinningurinn fyrir heilsuna er mikill án þess að hinar hefðbundnu hungurþjáningar föstunnar fylgi með. Sjálfur bjóst hann við að endurtaka leikinn eftir hálft ár og stefna að því að fasta með þessum hætti í fimm daga, tvisvar á ári.

Hægt er að lesa grein Bigelow og sjá allar mælingarnar hans HÉR.

Svona lítur FMD kúrinn út.
Svona lítur FMD kúrinn út.

 

Dagur eitt - 1.100 hitaeiningar

Sleppti morgunverði. Fékk sér baunasúpu í hádeginu og hálfan bolla af pistasíuhnetum. Í kvöldverð voru 60 g af ósöltuðum möndlum og grænmetissúpa. Fimm ólífur í kvöldsnakk.

Líðan: Stórfín. Fann til svengdar í lok dags en það er eðlilegt hjá Bigelow.

 

Dagur tvö - 800 hitaeiningar

Sleppti morgunverði. Baunasúpa í hádeginu. Ekkert millimál. Í kvöldmat var grænmetissúpa og fimm ólífur.

Líðan: Mjög svangur í hádeginu og klukkan þrjú helltist yfir þreyta og orkuleysi. Fór heim að sofa.

 

Þriðji dagur - 800 hitaeiningar

Sleppti morgunverði. Borðaði 10 ólífur í hádeginu, 1/2 avókadó og bolla af gufusoðnu brokkólí. Í kvöldverð fékk hann sér minestrone-súpu með viðbættri ólífuolíu.

Líðan: Þreyttur og tilfinninganæmur um morguninn. Fór að líða betur eftir því sem leið á daginn sem endaði með svo mikilli orku um kvöldið að erfitt var að sofa. 

 

Fjórði dagur - 800 hitaeiningar

12 möndlur í morgunverð. Í hádeginu fékk hann sér blómkálssúpu og bolla af gufusoðnu brokkólí. Í kvöldmat var hálfur bolli af pistasíuhnetum.

Líðan: Nokkur þreyta vegna svefnskorts. Þó einbeittari en hann bjóst við. Hungrið horfið.

 

Fimmti dagur - yfir 1.000 hitaeiningar

Bigelow segist hafa svindlað á degi fimm. Í stað þess að borða einungis 800 hitaeiningar ætlaði hann að borða stóra máltíð um kvöldið og hitaði því upp yfir daginn með því að borða léttan hádegisverð.

 

 

 

mbl.is