Klístraðir kóreskir kjúklingavængir

Ljósmynd/Ragna Björg

Það er engin önnur en hjúkrunarfræðingurinn, söngkonan, verkefnastjórinn og matarbloggarinn Ragna Björg sem heldur úti Ragna.is sem á heiðurinn af þessari uppskrift.

Hún segir að þeir séu bestu vængir sem hún hafi smakkað og taki jafnvel veitingahúsavængjum fram. Þér séu í senn sætir, sterkir, klístraðir, djúsí, stökkir og bragðgóðir.

„Uppskriftin inniheldur kannski hráefni sem þið eigið ekki endilega til í skápunum ykkar. Það góða við þessi hráefni er að þau geymast flest mjög lengi. Í framtíðinni er auðvelt að hendast til og græja þennan rétt með stuttum fyrirvara og það sem best er ... að tveir bakkar af kjúklingavængjum kosta vel undir 1.000 kr!"

Klístraðir kóreskir kjúklingavængir

Kjúklingavængir:

 • 2 bakkar kjúklingavængir skornir í bita (hendið vængendanum)
 • svartur pipar
 • salt
 • 2 cm rifið engifer
 • 1 bolli / 250 ml kartöflumjöl
 • um það bil 500 ml sólblómaolía (má vera meira)

Sósa:

 • 2 msk. tómatsósa
 • 2 msk. sojasósa
 • 2 hvítlauksrif - rifin
 • 2 msk. Gochujang paste (kóreskt chili paste sem fæst í asíubúðum)
 • 60 ml hunang (tært)
 • 60 ml púðursykur
 • 1 msk. sesamolía


Eftir á:

 • 1-2 msk. sesamfræ
 • saxaður vorlaukur (bara græni hlutinn)


Aðferð:

Kjúklingavængir:

 1. Skerið kjúklingavængina í þrjá hluta og hendið vængendanum.
 2. Þurrkið þá vel með eldhúspappír.
 3. Saltið yfir og piprið.
 4. Setjið rifinn engifer yfir og kastið kjúklingavængjunum saman í skál.
 5. Stráið kartöflumjöli yfir og hristið til í skálinni svo að allir vængirnir séu vel þaktir kartöflumjöli.
 6. Steikið vængina í heitri olíu sem er ca 180°C í potti á eldavélinni (ef þið eigið djúpsteikingarpott þá er það auðvitað það sem þið mynduð vilja nota). Þið eruð að fara að steikja vængina í nokkrum skömmtum og svo steikið þá AFTUR þegar búið er að steikja alla vængina einu sinni.
 7. Sem sagt: Steikið vængina í ca 5 mínútur við 175°C. Passið að hafa ekki of marga vængi í einu í pottinum. Eftir þessar 5 mínútur takiði þá út og leggið á pappír eða á ofngrind svo olían geti lekið af þeim.
 8. Á meðan þið hægt og rólega eruð að steikja vængina er kjörið að gera sósuna.
 9. Þegar búið er að steikja alla vængina einu sinni eru þeir steiktir aftur í nokkrum skömmtum í 180°C heitri olíunni en nú bara í 3-4 mínútur eða þar til orðnir örlítið brúnir en mjög stökkir.
 10. Látið vængina aftur á pappír eða ofngrind.


Sósa: 

 1. Setjið allt sem á að fara í sósuna í pott og látið suðuna koma upp og sjóðið við mjög vægan hita þar til sykurinn er uppleystur.


Samsetning:

 1. Þegar allir kjúklingavængirnir eru tvísteiktir, hitið sósuna þá aftur þannig að hún sjóði, setjið vængina í skál og hellið sósunni yfir. Kastið svo vængjunum til í skálinni þar til þeir eru allir þaktir sósunni.
 2. Raðið á bakka, stráið semsamfræjum og söxuðum vorlauk yfir.
Ljósmynd/Ragna Björg
mbl.is