Eldhús í Harlem með ótrúlegt geymslupláss

Eldhúshönnun í Harlem, sem er sniðin að þörfum eigenda þess.
Eldhúshönnun í Harlem, sem er sniðin að þörfum eigenda þess. mbl.is/Perry E Hall

Hér sjáum við stórsniðugar lausnir í litlu eldhúsi í Harlem í New York, sem inniheldur meðal annars veggtöflu undir bolla og annað eldhúsdót.

Það voru innanhússhönnuðirnir hjá Handwerk sem sáu um endurbæturnar á eldhúsinu – allt hugsað út frá rýminu og hvernig megi nýta plássið sem best. Eldhúsið er í eigu pars sem starfar við framleiðslu á heimildarmyndum. Eldhúsið er staðsett í fjölbýlishúsi í Harlem, í byggingu sem byggð var fyrir stríð og er eldhúsið um 15 fermetrar að stærð.

Í þessu verkefni var eldhúsið „stillt af“, það er að segja, hluti af vegg var fjarlægður sem breytti skipulaginu að samliggjandi rými og bætti þannig flæðið um eldhúsið. En fyrst af öllu voru matreiðsluvenjur parsins skoðaðar og hverjar þarfirnar þeirra eru, sem leiddi til sérsmíðaðra skápa í öllu eldhúsinu. Íbúarnir óskuðu eftir því að eldhúsið yrði fíntstillt að þeirra lifnaðarháttum og voru tortryggin gagnvart opnum hillum í þessu tiltekna eldhúsi.

Nýja skipulagið samanstendur af ofni og eins aðstöðu til að sitja og borða á annarri hliðinni – og með ísskáp og vask á móti. Þungamiðjan í eldhúsinu er léttur töfluveggur, þar hafa verið skorin út göt og litlir pinnar settir í til að hengja bolla, svuntur og annað tilheyrandi á. Lifandi veggur í stað þess að vera með mikið af opnum hillum. Opnar hillur eru þó fyrir ofan vask og ísskáp þar sem geyma má áhöld og krydd sem oftast eru í notkun í eldhúsinu, ásamt hárri bókahillu í einu horninu.

Litavalið er einnig róandi og fallegt. Áherslan hér var lögð í upphafi með bláum, gráum, grænum og viðarlitum. Efri skáparnir eru hvítir á meðan neðri skáparnir eru fagurbláir. Og á milli skápanna eru litlar túrkísflísar. Hér er gott jafnvægi og samsetning sem tónar vel á móti ljósa gólfefninu.

mbl.is/Perry E Hall
mbl.is/Perry E Hall
mbl.is/Perry E Hall
mbl.is