Ný grillkjötslína fyrir matgæðinga á markað

mbl.is/

Gourmet-naggar þessa lands geta sannarlega glaðst því komin er í verslanir ný grillkjötslína þar sem marineringarnar eru í allt öðrum gæðaflokki en við eigum að venjast.

Það er Hagkaup sem er með línuna sem er gefin út undir formerkjunum „Við elskum að grilla“. Ráðandi þema í bragðsamsetningunum eru trufflur en boðið er upp á þrjár mismunandi steikur með pipar-trufflumarineringu auk þess sem hægt er að fá lambalærissneiðar með salvíu, óreganó og chili og nautavöðva með kryddjurtasmjöri.

Að sögn Sigurðar Reynaldssonar, framkvæmdastjóra Hagkaups, hefur landinn greinilega verið duglegur að grilla og hefur salan og áhuginn á hvers kyns kjöti aukist gríðarlega á síðustu vikum. „Þessi nýja grilllína er okkar viðleitni til að bjóða viðskiptavinum okkar upp á spennandi nýjungar í þessum efnum og við höfum einblínt á sérvalið kjöt ásamt skemmtilegum kryddblöndum og marineringum. Við vonum að þessum nýjungum verði vel tekið af landsmönnum sem flykkjast nú margir í sumarbústaðinn eða útileguna með góðan grillmat í farteskinu,“ segir Sigurður.

Lambakótilettur með pipar-trufflumarineringu.
Lambakótilettur með pipar-trufflumarineringu. mbl.is/
mbl.is