Hvenær er best að þvo gluggana?

mbl.is/Shutterstock

Maður spyr sig þegar alls kyns heilræði og húsráð fljóta um netið – hvað sé satt og hvað sé rangt? Það er alveg sama hvort eða hvernig, við elskum að lesa um húsráð sem hjálpa okkur í annasömum hversdagsleikanum.

  • Þvottavélin er alltaf hrein – RANGT. Þó að þvottavélin snúist í eintóma hringi og þvoi fötin okkar þá þýðir það ekki að vélin sjálf sé hrein. Það er hellingur af kuski og öðru sem safnast fyrir í filternum sem þarf að þrífa. Það er fínt að keyra vélina annað slagið með 2-3 desilítrum af ediki á suðuprógrammi til að gefa henni gott „bað“. Og ekki gleyma sápuhólfinu sjálfu sem einnig þarf að skola af og til.
     
  • Maður á alltaf að nota heitt vatn til að leysa upp bletti – RANGT. Við vöskum upp og þurrkum af upp úr heitu eða volgu vatni og því eðlilegt að gera slíkt hið sama við fatabletti. En best er að þurrka bletti upp úr köldu vatni. Blóðblettur festist t.d. enn meira í flíkinni ef hann er bleyttur með heitu vatni.

  • Þú skalt alltaf þvo gluggana í grámygluveðri – SATT. Flest stökkvum við út til að þrífa gluggana þegar sólin leikur um okkur en það er ekki svo góð hugmynd. Sólin þurrkar sápuvatnið of fljótt sem skilur eftir sig óþolandi rákir í glerinu. Því er best að þvo gluggana þegar sólin skín ekki beint á þá.

  • Silfur má aldrei fara í uppþvottvél – RANGT. Maður tengir silfurborðbúnað við gamla góða uppvaskið. Það fer betur með silfrið að vera þvegið upp í höndum þó að það megi vel fara í vélina. Varist þó að setja beitta hnífa í uppþvottavélina því hnífsblöðin þola það illa.

  • Pottar og pönnur hafa ekki gott af því að standa of lengi í vatni – SATT. Það er auðvitað nauðsynlegt að láta skítugar pönnur og potta standa í vatni áður en skrúbburinn er tekinn upp. En það þykir ekkert sérlega gott fyrir pottana og sérstaklega ekki ef græjurnar eru úr burstuðu stáli því þá áttu á hættu að fá bletti sem þú kærir þig ekkert um. Sama gildir um trésleifar, þar sem viðurinn gliðnar bara í sundur í vatninu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert