Svona velur þú rétta borðstofuljósið

Ótrúlega fallegt loftljós frá Nuura Lighting.
Ótrúlega fallegt loftljós frá Nuura Lighting. mbl.is/Nuura

Borðstofa er ekki bara borð með stólum í kring, heldur einn af helstu samkomustöðum fjölskyldunnar og gesta. Þar skiptir borðstofuljósið ekki minna máli og undirstrikar stemninguna við borðið.

Nokkur ljós saman
Ef þú velur að hafa fleiri en eitt ljós yfir borðinu, þá skaltu passa að hafa ekki of langt á milli þeirra þar sem þau eiga að mynda eina heild. Tvö eða fleiri ljós yfir borðinu geta undirstrikað hvesu langt borðið þitt er – í stað þess að vera með eitt hangandi yfir miðju borðinu.

Breytir um stíl
Borðstofuljós getur breytt stemningunni til muna. Í raun getur þú breytt stíl rýmisins með ljósinu einu saman. Passaðu þig samt að fara ekki of langt út fyrir þann stíl sem þú ert að vinna með í restinni af stofunni nema þú sért með frekar látlaust og einfalt rými þar sem ljósið verður aðal-hetjan.

Ef þú ert að fara í miklar breytingar á borðstofurýminu er gott að búa til „moodboard“ og raða þar saman nokkrum hugmyndum af því hvernig þú sérð rýmið fyrir þér. Oft breytist allt við að setja eina mottu undir borðið eða fjarlægja einhverja hluti í hillum sem standa fyrir aftan borðið.

Litir
Ef þú velur borðstofuljós í lit og langar að halda í rauðan þráð í gegnum stofurýmin, þá er sniðugt að setja nokkra púða í sófann í sömu litartónum til að tengja saman rýmin - eða jafnvel lituð kerti, eitthvað sem auðvelt er að skipta út og breyta til. Sama gildir um ljós og aðra smáhluti í brassi eða stáli.

Klassísk hönnun
Með því að leggja aðeins meira upp úr borðstofuljósinu og velja klassíska hönnun, þá ertu með skothelt ljós sem passar alls staðar inn. Ljós frá Louis Poulsen og Le Klint eru þess á meðal, og munu slík ljós aldrei falla úr gildi. Í raun breytir klassísk hönnun sér eftir því umhverfi sem hún stendur í – það er að segja að sama hversu oft þú breytir um húsgagnastíl, þá mun klassísk ljósahönnun alltaf smellpassa inn í stílinn.

Rétta hæðin
Þegar þú hefur fundið hið rétta borðstofuljós sem hentar þínum persónuleika og heimili, þá er mikilvægt að hafa nokkur atriði í huga varðandi hæðina sem það hangir í. Ef þú hengir ljósið of hátt uppi, þá getur glampinn frá perunni farið að skera í augun og þú vilt heldur ekki hafa peruna það eina sem þú sérð af ljósinu. Og með því að hengja ljósið of lágt, þá færðu ekki alla þá lýsingu sem þú sækist eftir. Prófaðu að setjast við borðið og hugsaðu um alla þá fjölskyldumeðlimi sem munu koma til með sitja með þér til borðs áður en þú festir ljósið í ákveðinni hæð.

Birtustig
Eftir að hafa valið rétta ljósið og búið er að hengja það upp, þá er mikilvægta að huga að birtunni. Reyndu að velja þá peru sem framleiðandinn mælir með og ef þú hefur tök á, skaltu setja dimmer á ljósið – það mun breyta öllu varðandi stemninguna á góðum kvöldstundum.

mbl.is/Nuura
mbl.is