Elenora Rós sendir frá sér sína fyrstu bók

Elenora er á Instagram sem #bakaranora þar sem hún er …
Elenora er á Instagram sem #bakaranora þar sem hún er dugleg að deila góðum ráðum með fylgjendum sínum. mbl.is

Þær stórfréttir berast úr bakaraheiminum að einn vinsælasti bakaranemi og bakara-áhrifavaldur landsins sé að senda frá sér sína fyrstu bók í haust. Um er að ræða afar fjölbreytta bók sem ætti að nýtast öllum þeim sem langar að ná fullkomnu valdi á súrdeigsbakstri, prófa spennandi uppskriftir eða baka dýrindis sætabrauð eftir kúnstarinnar reglum.

Bakaraneminn Elenora Rós Georgesdóttir er búin að hasla sér völl sem einn vinsælasti bakari landsins á samfélagsmiðlum þar sem fylgjendafjöldi hennar eykst dag frá degi.
Elenora hefur jafnframt verið vinsæll gestur í Ísland vaknar á K 100 þar sem hún heillar þjóðina enda þykir hún sérlega skemmtilegur og heillandi viðmælandi.


Og nú ber til tíðinda því að von er á fyrstu bók bakaradrottningarinnar í haust. Að sögn Elenoru fjallar bókin fyrst og fremst um súrdeig og súrdeigsbakstur en inn í það blandast bakstur á sætabrauði og öðrum dásemdum eins og henni einni er lagið.
Elenora segir að markmiðið hafi verið að búa til bók sem innihéldi bæði nákvæma kennslu á súrdeigsbakstri sem vefst fyrir mörgum en er fremur einfaldur. Að auki sé allskonar sætabrauð í bókinni sem vonandi mælist vel fyrir.


Elenora starfar á veitingastaðnum í Bláa Lóninu en stutt er síðan Elenora var með pop-up á Deig þar sem löng röð myndaðist fyrir opnun og allt kláraðist á skammri stundu.
Ljóst er því að bókin verður mikill hvalreki fyrir brauðunnendur og heimabakara landsins enda verður bókin sneisafull að ómótstæðilegum uppskriftum ef marka má orð Elenoru.

mbl.is