Haustjógúrtin mætt í verslanir

Hin dásamlega Haustjógúrt frá Örnu er komin í verslanir en það þykir alltaf heyra til tíðinda enda ein vinsælasta jógúrt landsins og örugglega sú bragðbesta ef marka má fjölmarga aðdáendur hennar. Eins og fyrri ár er jógúrtin eingöngu framleidd í takmörkuðu upplagi.

Að sögn Örnu Maríu Hálfdánardóttur, sölu- og markaðsstjóra Örnu, er haustjógúrtin í þeirra huga skemmtilegt samstarfsverkefni. „Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að þetta hefur reynst vera kjörið tækifæri fyrir aðila í fjáröflunarhugleiðingum, til dæmis fyrir íþróttafélög og þess háttar. Við auglýsum því eftir aðilum sem langar að vera með í þessu með okkur og við munum byrja að taka á móti berjum mánudaginn 17. ágúst. Þrátt fyrir allt sem hefur gengið á síðustu mánuði þá gengur sumt bara sinn vanagang. Aðalbláberin í hlíðunum þroskast dag frá degi og það er útlit fyrir ansi góða berjasprettu þetta árið. Þau eiga þó nokkra daga í land (hér fyrir vestan að minnsta kosti) og það er því þolinmæðin sem gildir, í þessu eins og öðru,” segir Arna og bætir við að ekki sé sjálfgefið að landeigendur vilji berjatínslufólk á sínum landssvæðum og því sé gullna reglan ætíð sú að biðja um leyfi ef leiðin liggur um land í einkaeigu.  

Tekið verður á móti berjum í húsnæði Örnu á Bolungarvík alla virka daga milli klukkan 12 og 14.
„Við erum staðsett við Hafnargötu 80, beint á móti hinni einstöku Bjarnabúð - sem við mælum eindregið með fyrir ferðalanga. Fyrir nánari upplýsingar þá endilega sláið á þráðinn til okkar í síma 456-5600 eða sendið okkur línu á netfangið arna@arna.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert