Svona áttu alls ekki að geyma epli

mbl.is/News.com.au

Ástralskir ávaxtasérfræðingar hafa ljóstrað því upp að þú eigir ekki að geyma epli uppi á eldhúsbekk eins og flestir virðast halda. Þess í stað á að geyma þau í kæli til að tryggja ferskleika þeirra.

Að sögn sérfræðinganna (sem eru á vegum ástralskra eplaframleiðenda) lengist líftími þeirra og bragðgæðin haldast betur í kæli. Þeir sem kjósa epli við stofuhita ættu því að taka epli úr kæli um morguninn og setja í ávaxtaskál og borða síðar um daginn.

Eins er mælt með því að pensla eplið með sítrónu-, lime-, ananas- eða appelsínusafa eftir að búið er að skera það til að hægja á því að sárið verði brúnt.

Snjallt sé að halda skornu epli saman með teygju til að það verði ekki brúnt og haldist ferskt uns það er borðað.

Heimild: Aussie Apples

mbl.is