Allur ísinn seldist upp

Ljósmynd/Omnom

Við greindum frá því í gær að súkkulaðisjeníin hjá Omnom væru að opna ísbúð sem sérhæfði sig í ótrúlegum ísréttum. Svokölluð „mjúk opnun“ átti að vera um helgina en mikil ásókn í ísinn olli því að hann seldist allur upp.

Búðin er því lokuð í dag en ísáhugafólk getur tekið gleði sína því ísbúðin opnar formlega föstudaginn 25. september kl. 16.

Að sögn Hönnu Eiríksdóttur, markaðsstjóra Omnom, fóru móttökurnar fram úr björtustu vonum Omnom-liða. „Við brosum allan hringinn,“ sagði Hanna og ljóst er að landinn er spenntur fyrir frumlegum ísréttum að hætti Omnom.

mbl.is