Happ býður upp á tilbúnar máltíðir

Lovísa Stefánsdóttir, Lukka Pálsdóttir, Leifur Kolbeinsson og Sigurjón Bragi Geirsson.
Lovísa Stefánsdóttir, Lukka Pálsdóttir, Leifur Kolbeinsson og Sigurjón Bragi Geirsson.

Þau stórtíðindi berast úr veitingageiranum að veitingastaðurinn Happ hafi fengið tvo þungavigtarmatreiðslumenn til samstarfs og komin sé á markað ný lína af mat sem er tilbúinn beint í ofninn og tekur aðeins 15-20 mínútur að elda.

„Framboðið af tilbúnum matvælum hefur aukist gríðarlega undanfarin ár, enda er tíminn af skornum skammti hjá uppteknum Íslendingum. Það þekkja allir. Við hjá Happi erum stolt af því að geta boðið fjölskyldum hollan og bragðgóðan valkost þar sem þú veist að þú ert að stuðla að heilbrigði þínu og fjölskyldunnar,“ segir Lovísa Stefánsdóttir hjá Happi.

Happ fékk til liðs við sig matreiðslumeistarana Sigurjón Braga Geirsson, kokk ársins 2019 og þjálfara íslenska kokkalandsliðsins, og Leif Kolbeinsson á La Prima Vera til þess að setja saman matseðilinn fyrir Matur á mettíma-línuna.

Afraksturinn eru virkilega bragðgóðir og spennandi réttir sem eiga það allir sameiginlegt að vera gerðir úr fersku hágæða hráefni.

„Matur á mettíma er að mínu mati bylting í heimaeldamennsku. Við gerum allt hráefni tilbúið í réttu magni. Þú einfaldlega sækir hann til okkar, setur matinn í ofninn og eftir 20 mínútur getur þú borið á borð gómsæta og holla máltíð fyrir alla fjölskylduna,“ segir Sigurjón Bragi Geirsson matreiðslumeistari.

Nýir og spennandi tímar hjá Happi

Íslendingar þekkja vörumerkið Happ. Lukka Pálsdóttir, frumkvöðull í heilnæmri matargerð, opnaði fyrsta Happstaðinn í kjallaranum hjá sér, flutti hann svo á Höfðatorg þar sem hann var rekinn við góðan orðstír árum saman. Nú hefur Happ markað sér nýja stefnu og í stað þess að reka veitingastað á Höfðatorgi býðst viðskiptavinum að panta matinn í gegnum Happ.is og sækja hann.

„Þetta er gamall draumur að verða að veruleika. Happ vill hjálpa fólki að nálgast hollan og góðan mat og elda hann fyrir fjölskylduna. Þetta er ofureinfalt. Þú skoðar matseðilinn og pantar á Happ.is, getur pantað fyrir einn dag eða jafnvel alla daga vikunnar. Svo sækir þú matinn til okkar og slærð í gegn í eldhúsinu heima. Eldunarleiðbeiningarnar eru einfaldar og réttirnir eru hver öðrum betri og hollari,“ bætir Lovísa við að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert