Hamingjusamar hafrakökur

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Þessar frábæru hafrakökur koma úr smiðju Berglindar Heiðars á Gotteri.is. Hún segir þær bæði fljótlegar og einfaldar en þær eru með pekanhnetum og rúsínum sem passar einstaklega vel saman.

„Ég gerði þessar kökur í gærkvöldi með yngri dætrum mínum og gerðum við tvöfalda uppskrift því það er svo gott að geta sett þær í frystinn og síðan gripið með í nesti í skólann. Ég hef ekki tölu á því hvað ég er búin að borða margar síðan í gær en það er nú algjört aukaatriði, hahaha!" segir Berglind um kökunar góðu.

Hamingjusamar hafrakökur

Uppskriftin gefur 24-28 stykki

  • 120 g smjör við stofuhita
  • 230 g púðursykur
  • 1 egg
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 100 g Til hamingju tröllahafrar
  • 160 g hveiti
  • ½ tsk. lyftiduft
  • ½ tsk. matarsódi
  • ¾ tsk. salt
  • 80 g Til hamingju pekanhnetur
  • 100 g Til hamingju rúsínur

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°C.
  2. Þeytið saman smjör og púðursykur þar til létt og ljóst.
  3. Bætið þá við egginu og vanilludropunum og þeytið áfram, skafið niður á milli.
  4. Setjið næst tröllahafra, hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt í skálina og blandið saman á vægum hraða.
  5. Að lokum má saxa pekanhneturnar niður og blanda þeim ásamt rúsínunum við.
  6. Mótið kúlur úr kúfaðir matskeið af deigi með smá bil á milli og bakið í um 12-15 mínútur eða þar til kökurnar fara að gyllast.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert