Mexíkófiskrétturinn sem fjölskyldan elskar

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Það er ekkert launungarmál að þjóðin elskar mexíkóskan mat og hér erum við með ofnbakaðan fiskrétt að mexíkóskum hætti sem er svo dásamlegur að óstöðugir verða ærir og börn gráta af gleði.

Það er engin önnur en Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á heiðurinn af þessari uppskrift sem ætti að smellpassa á kvöldverðarborðið á hvaða heimili sem er.

Mexíkófiskur

Fyrir um 4-5 manns

 • 800 g þorskhnakkar
 • 1 stk. laukur
 • 100 g gular baunir (maísbaunir)
 • 1 ½ pakki mexíkósk súpa frá TORO
 • 500 ml rjómi
 • 400 ml vatn
 • Rifinn ostur (gouda og cheddar í bland)
 • Nachosflögur
 • Lime og kóríander
 • Olía til steikingar
 • Salt og pipar
 • Hrísgrjón
Aðferð:
 1. Hitið ofninn í 180°C.
 2. Skerið þorskinn í bita og raðið í botninn á eldföstu móti.
 3. Saxið laukinn niður, steikið upp úr olíu, saltið og piprið, setjið síðan yfir fiskinn í fatinu.
 4. Í sama potti má nú hella rjóma og vatni og hræra súpuduftið saman við. Leyfið að malla í nokkrar mínútur.
 5. Setjið gular baunir yfir fiskinn, hellið næst súpunni jafnt yfir allt og rífið ost yfir.
 6. Bakið í ofninum í um 20 mínútur, myljið þá nachosflögur yfir og bakið áfram í um 15 mínútur.
 7. Á meðan er gott að sjóða hrísgrjónin, leggja á borð og skera niður lime og kóríander til að strá yfir í lokin.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita ...

Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is