Kransakökuhringir eru það allra heitasta

Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Það er fátt skemmtilegra en þegar við fáum að útskýra fyrir öðrum hvað má og hvað ekki. Eins og til dæmis þegar kemur að því að skreyta um jólin. Blessunarlega getum við sagt ykkur hvað er í hátísku og gerir heimilin lekker... eins og þessir kransakökuhringir hér. Það er bæði hægt að borða þá og skreyta með þeim - sem er ótrúlega snjallt. Í fullkomnum heimi þyrftum við að borða allt jólaskrautið okkar en við látum þessa geggjuðu kransakökuhringi duga í bili.

Uppskriftin kemur frá Berglindi Hreiðars á Gotteri.is sem er flinkari en flestir í öllu sem viðkemur marsípani.

Kransakökuhringir uppskrift

Hringir

  • 1 kg Odense marsípan (þetta bleika)
  • 500 g sykur
  • 2 eggjahvítur

Aðferð:

  1. Brytjið marsípanið niður í nokkra hluta og setjið í hrærivélarskál með sykrinum, blandið vel saman með K-inu.
  2. Pískið eggjahvíturnar saman og setjið í nokkrum skömmtum saman við marsípanblönduna. Ef hvíturnar eru stórar þarf mögulega ekki að nota þær allar, setjið því minna í einu og passið að blandan verið ekki of blaut.
  3. Gott að taka síðan blönduna og hnoða aðeins í höndunum, plasta vel og kæla í að minnsta kosti 4 klukkustundir eða yfir nótt.
  4. Skiptið deiginu í nokkra hluta og rúllið hvern hluta út eins og pylsu sem er tæplega 1 cm í þvermál.
  5. Mælið á bilinu 15-16 cm langar lengjur með reglustiku og festið hverja saman í hring (uppskriftin dugar í um 45 hringi).
  6. Raðið á bökunarpappír og bakið við 200°C í um 8-10 mínútur (ofnar eru misjafnir svo hér þarf bara að fylgjast vel með og taka hringina út þegar þeir eru aðeins farnir að dökkna).
  7. Kælið hringina vel áður en þið sprautið glassúr yfir.
  8. Þegar glassúrinn er orðinn harður má binda slaufur á hringina til skrauts.

Glassúr

  • 1 eggjahvíta
  • ½ tsk. möndludropar
  • 150 g flórsykur

Aðferð:

  1. Þeytið allt saman og bætið flórsykri jafnt og þétt saman við eggjahvítublönduna þar til blandan fer að þykkna og verða teygjanleg.
  2. Setjið í sprautupoka með grönnum, hringlaga stút og sprautið mynstur á kransahringina.
Ljósmynd/Berglind Hreiðars
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert