Stórkostlegur kjúklingur undir austurlenskum áhrifum

Ljósmynd/Salt eldhús

Sirrý í Salt eldhúsi býður upp á þennan kjúklingarétt sem er sérlega spennandi. Sjálf notar Sirrý rauðkál sem meðlæti sem hún mælir sérstaklega með og leggur þá til að fólk noti mandólín til að þunnskera það.

„Hér erum við með japanska aðferð að steikja kjúkling sem þeir kalla „katsu“ og rauðkálssalatið er með dásamlegri asískri salatsósu. Salatið passar líka vel með grillmat. Ekki er nauðsynlegt að nota panko-rasp en það er gjarnan notað í Japan og er loftmeira en venjulegt rasp og gefur skemmtilega áferð," segir Sirrý um þennan rétt sem vert er að prófa.

Katsu-kjúklingur að hætti Sirrýjar

Fyrir 4

 • 6 kjúklingalæri, efri hluti, úrbeinuð (ca. 150 g á mann)
 • 1 ½ dl kartöflumjöl eða maizena-mjöl
 • 1-2 egg (fer eftir stærð), slegin sundur í skál
 • 2 ½ dl panko-rasp (eða bara venjulegt rasp)
 • 1-2 msk. sesamfræ
 • salt og pipar
 • olía til að steikja upp úr

Hitið ofninn í 200°C. Þerrið kjötið með eldhúspappír og veltið upp úr kartöflumjöli eða maizena. Hitið olíu á pönnu. Blandið raspi og sesamfræjum saman í skál. Veltið kjúklingnum upp úr eggjahræru og síðan raspi. Steikið kjúklinginn gullinn á báðum hliðum. Gerið þetta í tvennu lagi svo þið fáið bitana fallega brúnaða. Setjið brúnaða bitana síðan alla í ofnskúffu og klárið að elda þá í ofninum í 10 mín. Setjið salat á hvern disk. Sneiðið kjúklinginn niður og raðið ofan á salatið.

Salat:

 • ½ rauðkálshöfuð
 • 2 gulrætur
 • 1 paprika

nokkrar radísur

Sneiðið allt sem fer í salatið niður mjög þunnt, gott er að nota mandólín. Hellið salatsósu yfir og blandið saman.

Salatsósa:

 • 3 msk. olía
 • 1 msk sesamolía
 • 4 msk. hrísgrjónaedik
 • 3 msk. hunang
 • 1 msk. sojasósa

Setjið allt sem fer í sósuna saman í skál og blandið vel saman.

Panko-rasp er gjarnan notað í japanska matargerð og fæst í Asíu-búðum.

Ljósmynd/Salt eldhús
mbl.is