Þjóðin á hliðinni út af græju sem fæst í Costco

Enn er eitthvað eftir af græjunni sem er frá Gourmia.
Enn er eitthvað eftir af græjunni sem er frá Gourmia. Ljósmynd/Costco Gleði/Facebook

Áhugafólk um vöruúrvalið í Costco stendur nú á öndinni af spenningi vegna nýju græjunnar sem er að gera allt vitlaust. Eru lætin svo mikil að verið er að senda vini og ættingja í Costco til að kaupa nokkur eintök af græjunni sem virðist ætla að verða næsta æðið.

Við erum að tala um að græjan er kölluð "Yippee Ki Yay" sem á væntanlega að tákna hversu frábær hún er. Einn viðmælenda Matarvefjarins sagðist verða að kaupa græjuna því fólk væri að elda purusteik, lambalæri og beikon í þessari undragræju og væri ekkert lát á.

En hvaða græja er þetta?

Um er að ræða svokallaðan Air Frier sem er nokkurs konar míníblástursofn úr plasti sem hentar vel á ferðalögum. Slíkir ofnar hafa náð miklum vinsældum erlendis, þá ekki síst með góðri markaðssetningu en varan var auglýst sem djúpsteikingarpottur sem notar ekki fitu.

Slíkt gæti þó ekki verið fjarri lagi og það er fráleitt að halda að lambalærið komist fyrir í slíkum plastofni.

Hér er ekki á ferðinni græja sem mun bylta heimilishaldinu en ef þú ert að leita að einhverju nýju til að leika þér með þá er þetta alveg tilvalið til þess.

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina