Uppvask hefur mikil áhrif á sambandið

mbl.is/Getty Images

Í nýrri rannsókn var kannað hvaða áhrif skipting heimilisverka hafði á gæði sambanda. Niðurstöðurnar komu margar hverjar skemmtilega á óvart en vissulega gefur það augaleið að jöfn þátttaka í heimilisstörfum skiptir miklu máli. Fæsta hefði þó grunað að hvað viðkemur almennri hamingju voru sum heimilisstörf mun mikilvægari en önnur.

Þegar horft var til karlmanna reyndist mikilvægasta verkið vera innkaupin. Menn sem deildu þeirri ábyrgð með mökum sínum reyndust mun ánægðari í sínum samböndum að öllu leyti. Hvað konur varðaði var það uppvaskið sem reyndist hafa mest áhrif á gæði sambandsins.

Konur sem sáu um uppvaskið að mestu leyti voru almennt óánægðari í sínum samböndum, bæði andlega og kynferðislega, þegar þær voru bornar saman við konur sem deildu uppvaskinu til jafns við maka sína, sagði Daniel Carlsson, félagsfræðiprófessor við háskólann í Utah í Bandaríkjunum sem jafnframt var yfir rannsókninni.  

Að deila ábyrgð á uppvaskinu var stærsta uppspretta ánægju meðal kvenna en skortur á þessari sameiginlegu ábyrgð olli mestri óánægju.

Hver skýringin er á þessu öllu saman skal ósagt látið en ljóst er að lykillinn að hamingjuríku sambandi liggur í uppvaskinu.

Heimild: Council on contemporary families

mbl.is