Lang skemmtilegasta leiðin til að elda kjúkling

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Ef það er eitthvað sem klikkar aldrei þá er það heilgrillaður kjúklingur.

Hér er Berglind Hreiðars hjá Gotteri.is að galdra fram einn slíkan en hún segist kunna best við að nota sérstaka kjúklingagrind til að fuglinn sitji sem best á grillinu.

Eins sé snjallt að setja hálfa bjórdós inn í fuglinn og láta hann sitja á henni. Þá verður bjórangan af kjötinu sem einhverjir ættu að kunna vel að meta...

Kjúklingur á grillið

  • 1 heill kjúklingur (um 1,8 kg)
  • Ólífuolía til penslunar
  • Kjúklingakrydd
  • ½ Stella Artois dós eða magn sem passar í hólfið á standinum ef þið notið slíkan.

Aðferð:

  1. Þerrið kjúklinginn vel, berið á hann ólífuolíu og kryddið vel allan hringinn.
  2. Hitið grillið í 180-200°C.
  3. Hellið bjór í hólfið á standinum eða opnið dósina með dósaopnara og hellið um helming bjórsins út (í glas til dæmis, haha).
  4. Komið kjúklingnum fyrir „sitjandi“ ofan á dósinni eða á standinum.
  5. Grillið við óbeinan hita við 180-200° í lokuðu grilli í um 65-75 mínútur eða þar til kjarnhiti sýnir um 74°C.
  6. Leyfið kjúklingnum að standa í að minnsta kosti 10 mínútur áður en þið skerið í hann.

Grænmeti á grillið

  • 2 sætar kartöflur
  • 1 rauðlaukur
  • Ólífuolía
  • Salt, pipar, hvítlauksduft, annað krydd (t.d rósmarín)

Afðerð:

  1. Skerið kartöflurnar niður í litla teninga og laukinn í stóra bita. Blandið öllu saman á grillpönnu, veltið upp úr ólífuolíu og kryddið eftir smekk.
  2. Grillið við óbeinan hita í um 40 mínútur eða þar til kartöflurnar verða mjúkar (tíminn fer eftir stærð bitanna). Gott er að hræra reglulega í kartöflunum allan tímann.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert