Hvítlauksolíuskálin sem fagurkerar landsins elska

Hvítlauksolíuskálin sem fagurkerar landsins vilja.
Hvítlauksolíuskálin sem fagurkerar landsins vilja. Mbl.is/Mynd aðsend

Hér kynnum við verkfæri til að búa til hvítlauksolíu, eða skál sem þjónar tvenns konar tilgangi. Og heyrst hefur að fagurkerar landsins séu óðir í þessa íslensku hönnun. Skálin er fyrsti hluti af röð hugmynda sem er ætlað að hafa tvenns konar tilgang í eina og sama hlutnum, sem eiga það allir sameiginlegt að tengjast mat á einn eða annan hátt. Í botni skálarinnar leynist eftirmynd af brauðsneið sem var í alvörunni dýpt í postulín og fékk það nýja hlutverk að verða að rifjárni til framtíðar. Það er Guðrún Margrét Jóhannsdóttir sem á heiðurinn að skálinni sem á sér skemmtilega sögu.

Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Hugmynd af rifjárninu varð til annars vegar eftir að ég smakkaði PAN CON TOMATE á ferð minni um Katalóníu - sem er ristað brauð smurt með tómati, svo er salti stráð yfir og síðan olífuolíu hellt ofan á og önnur brauðsneið notuð til að þjappa gumsinu öllu vel saman. En þar sem ég er mikil pizzugerða kona og hreinlega elska hvítlauk og alls hins góða sem hann hefur okkur upp á að bjóða, þá nudda ég alltaf fyrst afskornum hvítlauk í sárið á brauðsneiðinni og bæti svo öllu hinu við. Hins vegar hef ég alltaf átt í basli með hvítlaukspressuna og hjálpaði það basl mitt til við að fá hugmyndina að Hvítlauksolíuskálinni“, segir Guðrún Margrét og bætir því við að hvítlauksskálin er dæmi um hönnun sem þjónar tvennum tilgangi og möguleikann á fækkun hluta í kringum okkur. Því í henni er rifjárnið fyrir hvítlaukinn og skálin fyrir ólífuolíuna splæst saman í eina póetíska postúlíns skál, sem heitir því einfalda nafni Hvítlauksolíuskálin.

Vandræði breytast í verkefni og allt meikar sens
„Matur er eitt af þeim elementum sem kveikja í hamingju þræðinum í mér. Að elda og gefa fólki að borða og njóta svo saman matarins er fyrir mér lífið í allri sinni mynd. Þegar ég upphaflega fór að hugsa um lögun og fúnksjón Hvítlauksolíuskálarinnar kom upp í huga mér hringlaga form, sem er svo táknrænt fyrir flæði, sameiningu, væntumþykkju, orku, upphaf og endi og byrjun á einhverju nýju. Ekki aðeins skálin er hringlaga heldur einnig hreyfingarnar sem skapast þegar hvítlaukurinn er verkaður. Þannig hugsaði ég sameininguna og notagildi skálarinnar og þannig er Hvítlauksolíuskálin einskonar óður til jarðarinnar, minning um tímann og okkur manneskjurnar, þar sem næringin sameinar okkur og gerir okkur gott“, segir Guðrún Margrét.

„Sem skúlptúristi, hönnuður og listkennari finnst mér mitt missjón í lífinu að leggja áherslu á mikilvægi þess að fá hugmyndir og að finna þeim farveg, sem fúnkera frá fleiri en einu sjónarmiði; því það eru jú sextán hliðar á öllum málum. Og hvað baslið getur orðið eitthvað lýrískt og harmónískt ef maður kýs að horfa þannig á vandræði, breytast þau í verkefni sem verða að fallegri og nýtsamlegri hönnun. Það er eins og það sé ástæða fyrir öllu og þegar maður fer að taka eftir því, fer allt að meika sens!“ segir hún og við tökum heilshugar undir.

„Að hanna er eins og að anda með heilanum“
„Að hanna er eins og að anda með heilanum“, segir Guðrún Margrét. „Ferlið verður mjög tilfinningalega tengt og nær hápunkti þegar hugvit, útlit og virkni falla í ljúfa löð. Þetta ferli fær svo ákveðna mynd á sig og veraldlegan tilgang sem svo finnur sinn farveg. Sá farvegur gæti verið á matarborðinu heima hjá þér, inní eldhúsinu þínu, á öxlinni þinni eða í allt öðru samhengi, jafnvel án þess efnislæga“.

„Hönnun í mínum huga þýðir ekki að eiga fullt heldur þvert á móti, að eiga fátt sem þjónar þér og þínu lífi og þú getur átt lengi. Ég nánast tilbið handverkið vegna þess að ég dýrka sláttinn í hinum lífræna tíma, að VERJA honum og ekki EYÐA, þessi kombínasjón er fyrir mér sama sem súrefnið sem heldur í okkur lífi og elur af sér vilja í verki“, segir Guðrún Margrét.

70/30 – gengur alltaf upp
Guðrún Margrét setur sjálfa sig ekki undir einn hatt þegar kemur að hönnun, því fyrr henni er hönnun ekkert nema lífið sjálft með öllum sínum úturdúrum í bland við kóríógrafíuna sem svo oft á tíðum gengur upp og slær í gegn. „Ég hef fengið svo mörg og ólík verkefni upp í hendurnar allt frá því að búa til hreyfanlegt híbýli ásamt hóp af góðum kollegum, sem gengur undir nafninu Bomobil. Var einn af tveimur stofnendum líffrænsræktað bakarís sem var starfrækt í Barcelona og réði enga bakara - gekkst undir því útópíska nafni BarcelonReykjavík og hafði heimspeki Rudolf Steiner og Goethe að leiðarljósi. Lærði hangerða skósmíði og er að bæta við mig þar“, segir hún og er greinilega margt til lista lagt.

„Ég sé fyrir mér að halda áfram á sömu braut og takast á við hin ólíkustu verkefni og fannst mér því tilvalið að logoið mitt mundi vera 70/30 af því að það gengur einhvern veginn alltaf upp á öllum sviðum lífsins. Sjórinn er t.d 70% af flatamáli jarðar, líkami okkar er 70% vatn og hvítlaukurinn 30% og ólífuolían 70% hvað varðar Hvítlauksolíuskálina og svona mætti lengi telja upp“, segir Guðrún Margrét.  

Skálin er óður til jarðarinnar
„Hæg hönnun er annar vínkill sem ég gef mikinn gaum og er í miklu uppáhaldi hjá mér, því ég tel hana eins þarfa náttúrunni og öllu því sem bærist á jarðkúlunni eins og höfuðáttirnar eru ferðalanganum úti í víðáttunni uppi á hálendinu. Þar er mergurinn málsins að sameina hugsunina, tilfinninguna og gjörðina eða þörfina og heiðarleikinn tekur öll völd því ferlið fær sitt sjálfstæði í tímanum sem það tekur - og því ekki komist hjá umhugsun og að velta vöngum í allar áttir og draga djúpt inn andann“.

„Að varpa ljósi á mikilvægi hönnunar en í leiðinni að nærgætni gagnvart okkar nánasta umhverfi er mikið þarfaþing. Skálin er óður til jarðarinnar og eins konar minnisvarði hennar og þess vegna fannst mér mikilvægt að bein snerting með fingrunum utan um hvítlaukinn ætti sér stað svo að tilfinningin, verknaðurinn og útkoman rynni í eitt. Er ekki allt komið af jörðu og af jörðu skal allt verða?“, segir Guðrún Margrét að lokum. Og fyrir áhugasama, þá má nálgast skálina í Rammagerðinni. 

- - -

Fylgstu með Mat­ar­vefn­um á In­sta­gram. Enda­laus æv­in­týri, hug­mynd­ir, skemmti­leg­ir leik­ir og allt það heit­asta heita ...

Svo megið þið endi­lega tagga okk­ur á In­sta­gram þegar þið eruð að elda eitt­hvað spenn­andi @mat­ur.a.mbl

Skálin er með rifjárni á botninum og þjónar því tvenns …
Skálin er með rifjárni á botninum og þjónar því tvenns konar tilgangi. Skálin er fáanleg í Rammagerðinni. Mbl.is/Mynd aðsend
Guðrún Margrét er fjölhæfur hönnuður.
Guðrún Margrét er fjölhæfur hönnuður. Mbl.is/Mynd aðsend
mbl.is