Kjúklingarétturinn sem fær matgæðinga til að mjálma

Ljósmynd/Eyþór Rúnarsson

Meistari Eyþór Rúnarsson galdrar hér fram kjúklingarétt sem fær matgæðinginn til að mjálma af gleði. Svo einfalt er það nú!

Hér er allt það sem hægt er að óska sér: kjúklingur, karrí og ruglgott salat sem setur punktinn yfir i-ið á fullkominni máltíð.

Kjúklingalæri í grænkarrísósu með ananas og spínatsalati

Fyrir fjóra

Kjúklingalæri 

  • 800 gr úrbeinuð kjúklingalæri 
  • 1 msk hvítlauksduft 
  • 1 tsk fínt salt 
  • 1 msk malað engifer
  • 1 msk sesamolía 
  • 2 msk sojasósa 
  • 2 msk olífuolía 

Setjið kjúklingalærin í skál ásamt öllu kryddi og olíu. Blandið öllu saman og látið standa inni í kæli í 24 tíma. Setjið í eldfast form í 200 gráðu heitan ofninn í 20 mín. eða þar til lærin ná 73 gráðum í kjarnhita.

 

Grænkarrísósa 

  • 1 laukur 
  • 1 hvítlauksrif 
  • olía til steikingar 
  • ½ l matreiðslurjómi
  • 100 ml vatn 
  • 3 tsk grænt karríþykkni 
  • 1 tsk kjúklingakraftur 
  • ½ stk límónusafi  
  • fínt salt 
  • sósujafnari

Skerið lauk og hvítlauk fínt og steikið létt í potti. Hellið rjómanum út í pottinn ásamt karríþykkni og kjúklingakrafti. Maukið allt saman með töfrasprota og þykkið með sósujafnaranum eftir smekk. Smakkið til með salti og límónusafa.

Spínat- og ananassalat 

  • ½ ananas 
  • ½ hunangsmelóna 
  • ½ stk vorlaukur 
  • 1 msk fínt skorinn rauður chili 
  • 2 msk fínt skorið kóríander 
  • 80 g ristaðar kasjúhnetur
  • salt 
  • 1 poki spínat 
  • ½ límóna, safi og börkur 
  • 4 msk ólífulía 

Skrælið og skerið ananas og melónu í litla bita. Skolið vorlaukinn og skerið hann fínt niður. Blandið öllu nema spínatinu saman í skál og smakkið til með salti. Skerið spínatið niður í þunnar ræmur og setjið út í skálina með hinu hráefninu. Setjið í fallegt fat og berið fram.

Gott er að bera þennan rétt fram með hrísgrjónum.

Ljósmynd/Eyþór Rúnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert