Ramsay telur íslenska „hnossgætið“ ekki hæft til manneldis

Ljósmynd/skjáskot úr Uncharted

Þegar slegið er inn leitarorðið íslenskur matur á leitarvélum birtast myndir af kæstum hákarli og brennivíni. Erlendir fjölmiðlar fjalla fjálglega um þann óskapnað og að aðeins þeir allra hörðustu geti látið sig hafa þessa eldraun. Svo svakaleg þykir hún.

Fjallað var um það á dögunum þegar Gordon Ramsay kom hingað til lands með National Geographic og hrækti út úr sér hákarli og hafði á orði að þetta væri varla ætlað til manneldis.

Margir hafa haft á orði að varhugavert sé að kynna íslenskar matarhefðir með þessum hætti. Nær væri að leggja áherslu á íslenska lambakjötið og fleira í þeim dúr. Fiskinn okkar, hverabakaða rúgbrauðið og þar fram eftir götunum. Að kynna endalaust íslenskan mat sem einhvern viðbjóð er ekki það sem við viljum eða hvað?

Íslenskir veitingastaðir eru upp til hópa á heimsmælikvarða og það er hráefnið líka. Nær væri að ferðaþjónustan og aðrir hagsmunaaðilar tækju sig saman um samstillt átak þannig að vörumerkið Ísland væri samnefnari yfir hreinleika og gæði – ekki mat sem einungis þeir allra súrustu geta í sig látið.

Frétt People um málið

mbl.is