Rúmum fjórum mánuðum á undan áætlun

Þær Karen Ósk Óskarsdóttir og Elva Rós Hrafnsdóttir vígðu rampinn …
Þær Karen Ósk Óskarsdóttir og Elva Rós Hrafnsdóttir vígðu rampinn en með þeim í för var sonur þeirra Birnir Matthías Elvuson sem fékk þann heiður að vígja rampinn í barnavagni.

Römpum upp Reykjavík, sem er hluti af Aðgengissjóði Reykjavíkur, setti nýlega upp ramp númer 80 við Laugaveg 40a.

Rampurinn, sem staðsettur er fyrir utan veitingastaðinn Rossopomodoro, þykir einkar glæsilegur en hann var hannaður af Lilju Kristínu Ólafsdóttur, landslagsarkitekt, en Stjörnugarðar sáu um að setja upp rampinn. Verkefninu sjálfu var hleypt af stað 11. mars sl. en fyrsti rampurinn var vígður þann 16. apríl í verslun Kokku á Laugavegi.

Upphaflegt markmið verkefnisins var að setja upp 100 rampa í miðborg Reykjavíkur fyrir 1. mars 2022. Síðustu ramparnir eru margir flóknari og kosta meira samráð, en áætlað er að 100 rampa markmiðinu verði náð fyrir 31. október, rúmum fjórum mánuðum á undan áætlun, að því er fram kemur í tilkynningu.

Þær Karen Ósk Óskarsdóttir og Elva Rós Hrafnsdóttir vígðu rampinn en með þeim í för var sonur þeirra Birnir Matthías Elvuson sem fékk þann heiður að vígja rampinn í barnavagni. 

„Þetta er svo skemmtilega fjölhæft. Rampar sem þessir gagnast ekki aðeins hreyfihömluðum heldur líka þeim sem þurfa t.d. að ýta á undan sér kerrum og hjólum. Við erum alltaf líklegri til að fara inn á veitingastaði eða í verslanir sem bjóða okkur að rúlla vagninum beint inn, í stað þess að drusla honum upp erfiðar tröppur. Þetta er mikil framför“, sagði Karen.

„Rampar sem þessi gagnast okkur öllum, þeir eru ekki síður mikilvægir fyrir okkur veitingamennina þar sem að við erum að opna á nýjan kúnnahóp. Allir vinna. Héðan í frá get ég stoltur sagst vera með ramp fyrir utan veitingastaðinn minn“, sagði Lárus Guðmundsson, veitingamaður á Rossopomodoro.

Aðgengissjóður Reykjavíkur: Römpum upp Reykjavík er sjálfseignarstofnun opinberra aðila, félagasamtaka og fjölmargra fyrirtækja sem standa  straum af kostnaði við aðgengislausnir við verslunar- og veitingahús í miðborg Reykjavíkur. Unnið hefur verið að gerð rampanna í góðu samstarfi við eigendur viðkomandi bygginga- og skipulagsyfirvöld en Reykjavíkurborg er meðal stofnaðila að verkefninu og tryggir góðan framgang þess. Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, er hvatamaður verkefnisins og helsti styrktaraðili.

Hægt er að kynna sér verkefnið betur á rampur.is.

mbl.is